154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hér stígum við ný skref með frumvarpi til laga um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar. Varðandi atvinnuhlið aðgerðanna Grindavík til hjálpar finnst mér, eins og ég sagði í ræðu minni áðan varðandi framlengingu á rekstrarstuðningi, húsnæðisstuðningi og styrkjum til að greiða laun, að við höfum ekki lært nægilega af þessu. Mér finnst við nota COVID-aðferðafræði of mikið. Það er ekki tekið á því fólki sem féll milli skips og bryggju.

Ég styð vissulega markmið þessa máls. Reyndar tel ég að við eigum eftir að sjá það þegar umsóknir koma inn — ég vona að sem flest fyrirtæki komi inn — að vel getur verið að umsóknir komi sem ættu raunverulega að fá stuðning en falla ekki algjörlega inn í þetta form sem verið er að setja hér. Ég vona hins vegar að stjórn sjóðsins flaggi því og láti vita eða veiti stuðning. Skilyrði varðandi óbeint tjón eru ekki rosalega mikil. Það er spurning um framtíðartjón sem hefur kannski ekki verið sannað að hafi orðið. Það er spurning hvernig það verður lagt fram.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að í minnisblaði frá matvælaráðuneyti um frumvarp sem hefur verið hér til umræðu, og barst í dag, kemur fram með leyfi forseta: „Samkvæmt upplýsingum starfshóps liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um óbeint tjón.“ Einnig kemur fram að ráðuneytið hafi engar upplýsingar um að slíkt tjón hafi orðið. Því væri ekki kunnugt um það. Einnig kemur fram að það sé að afla frekari upplýsinga um málið og muni upplýsa atvinnuveganefnd um það. Hér höfum við frumvarp sem á að bæta óbeint tjón af völdum hamfara á matvælum og fóðri án þess að vita neitt um umfangið. (Forseti hringir.) Það finnst mér svolítið sérstakt. Við rennum blint í sjóinn með það að bæta tjón án þess að hafa nokkra hugmynd um hversu mikið það verður.