154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svörin. Ég er skoðanasystir hans í því að ég hef áhyggjur af því að við beitum COVID-aðferðafræði varðandi vanda sem er eðlisóskyldur. Ég spurði hann um ákall fyrirtækja því að ég stóð hér í andsvörum við þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, einn af þremur síðastliðið hálft ár. Það var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Ég var í andsvörum við hana 1. febrúar þar sem við vorum að ræða það að atvinnulíf og fólk verður ekki sundur skilið. Auðvitað voru fyrstu viðbrögð að koma fólki í skjól. Þá tók við samtal um húsnæði. En atvinnuhlið allra aðgerða hefur verið allt of seinvirk. Atvinna er súrefni samfélagsins. Þegar þessi þáttur er seinna á ferðinni horfum við mjög líklega á afleiðingar til lengri tíma litið fyrir fólkið sem um ræðir.

Mér finnst áhugaverður punkturinn hjá hv. þingmanni um skort á upplýsingum um óbeint tjón og hvað við vitum lítið. Í því samhengi þarf auðvitað að vera ágætlega opið hvað við erum að tala um. Ég tek undir með honum að það verður fróðlegt og gagnlegt. Vonandi berast umsagnir til nefndarinnar þannig að við getum náð utan um það verkefni að forma góð markmið þessa frumvarps þannig að það geti náð mesta mögulega árangri fyrir þá sem um ræðir.