154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Það er alveg hárrétt að við verðum að koma í veg fyrir þær afleiðingar til lengri tíma litið að Grindavík verði ekki eins öflugur staður, öflugt bæjarfélag og öflugur sjávarútvegsbær og var fyrir jarðhræringar. Sennilega var þetta eitt ríkasta bæjarfélag á landsbyggðinni hvað varðar sjávarútveg.

En það virðist vera miðað við fréttir frá sjávarútvegsfyrirtækinu Þorbirni hf. í Grindavík að þeir hafi sagt upp 58 starfsmönnum. Það eru störf fólks sem hefur starfað í landvinnslu. Það er alveg klárt mál, eins og ég sagði í ræðu minni, að þeir hafa því miður ekki séð til lands hvað þetta varðar. Aðgerðir stjórnvalda leiði óhjákvæmilega til breytinga á starfsemi fyrirtækisins. Það er það sem þau eru að segja. Þau segja líka: Við munum áfram þrýsta á stjórnvöld að gera okkur og öðrum fyrirtækjum kleift að halda starfsemi sinni áfram í Grindavík að gættu fyllsta öryggi.

Þetta sýnir mér það að samtal stjórnvalda og fyrirtækja í Grindavík hefur ekki verið nægilegt. Það hefur ekki verið hlustað á það og ekki verið reynt að komast að því að hvað það er sem fyrirtæki þurfa. Það kemur bersýnilega fram í minnisblaði sem við fengum í dag frá matvælaráðuneyti. Þar kemur í fyrsta lagi fram, eins og ég sagði áðan, að engar upplýsingar liggja fyrir um það hver fjárhæð óbeins tjóns er. En samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi urðu fyrirtæki í sjávarútvegi fyrir óbeinu tjóni við upphaf jarðhræringa. Þá komust starfsmenn fyrirtækjanna ekki til Grindavíkur í 17 daga. Þá hafði orðið tjón á hráefni, m.a. fiski sem var í vinnslu. En það er ekkert vitað um umfangið. Þetta snýst um fjármuni og hversu mikið tjónið var. Fyrir nefndarmann í fjárlaganefnd skiptir það öllu máli. (Forseti hringir.) Hversu mikið þarf ríkissjóður að setja í Afurðasjóð til að geta stutt atvinnulíf í Grindavík með nægilegum hætti?