154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langaði að tala um einn hlut sem hv. þingmaður nefndi. Eins og ég nefndi áðan er ekki um afturvirkt frumvarp að ræða. Það gildir frá og með þeim degi þegar það er samþykkt. Hingað til hefur orðið eitthvert tjón, sér í lagi fyrst þegar menn voru ekki alveg með það á hreinu hvenær mætti hleypa fólki inn á svæðið. Í dag er aðallega skortur á rafmagni sem orsakar þetta. Rýmingin fær oftast að fara í gegn þegar fyrstu 24 tímarnir eru liðnir því að þá eru komin betri gögn um það hvar hættan er á svæðinu.

Hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari að það eru ekki mikil gögn um þetta. Það sem mig langaði að spyrja um er það hvort við þurfum ekki að óska eftir dýpri gögnum. Nú kemur þetta einmitt inn í nefnd þar sem ég á sæti. Þurfum við ekki að óska eftir nánari gögnum þannig að við getum betur áttað okkur á umfanginu, bæði ef við horfum aftur á bak í tíma og fram í tímann? Hvað hefði þetta stutt fyrirtæki mikið? Hvað getum við reiknað með að þetta geti stutt fyrirtæki? Er hv. þingmaður sammála því að við þurfum að vera duglegri innan þingsins að hafa gögn bak við þær ákvarðanir sem við tökum við lagasetningu?