154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg ljóst í þessu máli að við rennum blint í sjóinn með það hversu miklum útgjöldum ríkið mun lenda í til að bæta tjónið. Engin könnun virðist hafa verið gerð á mögulegu umfangi. Það kemur fram í minnisblaðinu í dag. Líka það að tjón hefur orðið. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa sagt það. Ekki kemur fram hvert umfangið er. Umfangið mun koma í ljós þegar umsóknir verða lagðar fram. Það kemur fram í 2. mgr. 9. gr. að í umsókn skuli koma fram hvert tjónið er og upplýsingar um umfang þess. Þá fyrst mun stjórn sjóðsins og við fá að vita það, væntanlega í fjárlaganefnd og hér á Alþingi, hversu mikið umfang tjóns er. Það finnst mér ekki alveg nægilega gott.

Að eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins segi upp fólki og lýsi óánægju með það að yfirvöld hafi ekki komið til móts við það fyrirtæki sýnir að það hefur ekki verið nægilegt samtal við fyrirtæki á svæðinu um þarfir þeirra og um það hvernig ríkið hefði getað komið til móts við þau. Það hefði þurft að gera ýmislegt, t.d. hefði þurft aðstoð við að flytja starfsemina að hluta. Vissulega geta bátar landað annars staðar. Tjón í rekstrarumhverfinu virðist vera mjög mikið miðað við þessar uppsagnir. Við erum algerlega að mínu mati að renna blint í sjóinn varðandi umfangið. Það hefur ekki verið gerð nein könnun á því. Það hefði auðveldlega verið hægt að gera þar sem við erum að tala um tæplega 4.000 manna byggðarlag og fyrirtæki ekki það mörg að ekki sé hægt að rannsaka það á nokkrum vikum.