Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar aðeins að leiðrétta eitt að hluta til. Það er ein upphæð í frumvarpinu sjálfu, 400 millj. kr., sem var skýrð þannig út fyrir okkur að hún væri reiknuð út frá virði afla sem gæti mögulega verið í Grindavík hverju sinni. Fyrir utan þessi fiskvinnslufyrirtæki sem hafa afla eru þarna líka veitingastaðir. Að sjálfsögðu getur skemmst matur og annað hráefni hjá þeim. Þeir myndu þá fá það bætt samkvæmt þessu.
Mig langar hins vegar að spyrja um eitt í frumvarpinu sem við tókum eftir þegar við skoðuðum það í morgun. Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta: „Fjárhagsaðstoð vegna tjóns skv. 1. mgr. verður aðeins veitt hafi tjón orðið innan þéttbýlismarka Grindavíkurbæjar.“ Hvað finnst hv. þingmanni um það að það sem er innan þéttbýlis sunnan megin við Þorbjörn sé verndað en að veitingastaðir og hráefni, t.d. í Northern Lights Inn og Bláa lóninu, sé ekki verndað af Afurðasjóðnum þótt þau lendi í nákvæmlega því sama og er að gerast sunnan megin við Þorbjörn?