154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:29]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Það kemur fram í greinargerð að við mat á mögulegri fjárþörf sjóðsins megi líta til verðmætis sjávarafurða sem eru í Grindavík á hverjum tíma en ætla megi að meiri hluti fjárhagslegs stuðnings muni ná til afurða sjávarútvegs. Það er litið til þess og er gróflega áætlað. Það á ekki að vera mikið mál að kanna einfaldlega lagerstöðu hjá fyrirtæki og athuga hver hún raunverulega er. Það þarf ekki að áætla það. Það er málið.

Þetta eru ekki einungis sjávarútvegsfyrirtæki. Ég get tekið dæmi um það. Mér skilst að eitt stærsta þvottahús landsins sé í Grindavík, sem þvær þvott frá hótelinu í Bláa lóninu. Það hefði verið hægt að áætla lagerstöðu og hversu miklar skemmdir hafa orðið á matvælum, fóðri og afurðum með miklu nákvæmari hætti með því einfaldlega að skoða lagera og þau matvæli sem lágu undir skemmdum. Þetta er ekki stórt bæjarfélag og það hefði verið hægt að skoða þetta með miklu nákvæmari hætti.

Við bíðum eftir umsóknum og sjáum hvað kemur út úr því. Það kemur fram í frumvarpinu að áætlun, sem lögð er fram í greinargerð, er háð mjög mörgum óvissuþáttum. Við erum með mjög marga óvissuþætti og rennum blint í sjóinn hvað varðar fjárútlát. Ég tel líka að miðað við fréttir, sem ég er búinn að segja nokkrum sinnum, varðandi uppsagnir í Grindavík virðast fyrirtæki, að minnsta kosti stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu, ekki ánægð með aðgerðir stjórnvalda. Það er umhugsunarefni fyrir okkur öll því að við höfum lagt mikinn tíma og vinnu í þinginu í frumvörp um rekstrarstuðning, húsnæðisstuðning og stuðning til greiðslu launa. (Forseti hringir.) Svo þetta núna. Samt er óánægja hjá fyrirtækjum og þau eru með ákall til stjórnvalda um aðgerðir.