Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þetta mál sem hæstv. matvælaráðherra hefur kynnt hér. Ég vil segja til að byrja með að hún hefur verið mjög — upplýsandi er kannski ekki endilega rétta orðið heldur mikilvæg, umræðan sem hefur átt sér stað í dag og í gær um málefni Grindvíkinga. Án þess að ég geri lítið úr þeim ráðstöfunum sem stjórnvöld hafa komið fram með og þeim málum sem Alþingi hefur samþykkt einróma síðustu mánuði og jafnvel lengra aftur frá því að þessi ósköp, þessar hamfarir dundu á íbúum Grindavíkur, þá verður að segjast eins og er að okkur hefur því miður verið svolítið tamt undanfarið að ræða í þaula ýmis mál sem varða minna þjóðarhag og/eða hag fólks sem á allt undir því að við bregðumst hratt og vel við. Ég ætla að leyfa mér að segja að þessi mál muni fara hratt og örugglega í gegnum þingið og verði samþykkt en það skiptir líka máli að við sýnum málefnum Grindvíkinga og þeim erfiðleikum sem þeir standa frammi fyrir, þeim áskorunum og því þrekvirki sem fólk sem heldur saman fjölskyldum og reynir að halda heimili og sinna sínum dagsdaglegu verkum, hvort sem það er nám barna eða að halda til vinnu, sækja vinnu annars staðar, flytja og sinna veikum fjölskyldumeðlimum og öllum þessum verkefnum sem okkur hinum reynast býsna þung oft og tíðum, þótt við búum við örugg heimili og ekki þær hamfarir sem Grindvíkingar hafa mátt þola — að við sýnum þessu máli þá virðingu að ræða það í þaula. Umræðan leiðir okkur oft á nýjar slóðir og kveikir ýmsar góðar hugmyndir sem ég vona að stjórnvöld taki síðan til sín. Fyrir mitt leyti hefur mér þótt gríðarlega áhugavert að sitja hér og hlusta á reynslusögur sem ekki síst þingmenn svæðisins þekkja og deila með okkur um það sem fólk er að kljást við.
Nú erum við að ræða seinna frumvarpið af tveimur sem ríkisstjórnin lagði fram í þessari umferð, ef svo má segja, og geng ég út frá því að þetta sé mögulega það síðasta sem komi fram fyrir þinghlé ef frá er talinn fjáraukinn sem þarf að koma í kjölfarið. Við erum þá að tala um þetta frumvarp til laga um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar. Í þessari umferð erum við loksins að beina sjónum okkar að atvinnulífinu. Það er auðvitað eðlilegt fyrst þegar þetta áfall dundi yfir að fyrsta áherslumál hafi verið að koma fólki bókstaflega í skjól. Síðan tók auðvitað við verkefnið að tryggja húsnæði. Það er ekki frágengið en skref hafa verið stigin í þá átt. Nú er loksins komið að því að finna leiðir til að mæta þeim skelli sem atvinnulífið í þessu öfluga bæjarfélagi hefur orðið fyrir. Ég hygg að aðrir þingflokkar en Viðreisn hafi fengið erindi, ákall og heimsóknir frá fólki sem rekur fyrirtæki eða hafði rekið fyrirtæki í Grindavík þar sem það ýtti fyrst eftir úrlausnum, síðan enn fastar og svo bókstaflega, ég ætla bara að nota það orð, grátbað það um að á það yrði hlustað og að úrlausnir kæmu. Það var erfitt að hlusta á það sem þau hafa verið að upplifa og hvað þetta kostar raunverulega mörg þeirra mikið, ekki bara fjárhagslegt tjón heldur orku og öryggi sem er verið að svipta fólk þegar lífsviðurværi þess og fjölskyldna er farið í einu vetfangi.
Þetta þekkjum við öll. Ég vil bara nefna þetta vegna þess að röðin hefur verið einhvern veginn svona: Fólki er komið í skjól, síðan er það íbúðarhúsnæðið og svo er komið að atvinnuhúsnæðinu. Þetta er seinna málið sem við ræðum núna. Það er ekki efnislega flókið og svo sem hefur verið farið ágætlega yfir það hér en það eru ákveðnir þættir í því, t.d. að þetta mál er ekki afturvirkt. Nú sit ég í atvinnuveganefnd þar sem þetta mál fer til umfjöllunar eftir að umræðu hér er lokið og til þess að flýta fyrir vinnslunni var það samþykkt einróma í nefndinni að fulltrúar ráðuneytisins myndu mæta á fund nú í morgun til að kynna málið en ekki eftir að 1. umræðu lýkur eins og vaninn er. Eftir þá umræðu eða meðan á henni stóð kölluðum við eftir upplýsingum um það hvort þegar hefði orðið tjón sem félli undir gildissviðið. Það var eitthvað djúpt á þeim upplýsingum en fulltrúar ráðuneytisins munu afla þeirra eftir því sem tími gefst til. Þetta gerðist náttúrlega bara í morgun. Þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir er að ekki liggi fyrir upplýsingar um óbeint tjón sem þessu frumvarpi er ætlað að mæta. Þó var það þannig að á fyrstu mánuðum eldsumbrotanna munaði oft mjóu og auðvitað varð eitthvert tjón þá, en þetta er sem sagt ekki afturvirkt. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gátu upplýst um það að fyrirtæki í sjávarútvegi alla vega hefðu orðið fyrir svona óbeinu tjóni í upphafi jarðhræringanna þar sem starfsmenn komust ekki til Grindavíkur í tvær og hálfa viku og þá hafi orðið tjón á hráefni, t.d. fiski.
Þetta er ekki afturvirkt sem veldur kannski líka því að við þurfum að fara yfir það í nefndinni, eins og kveðið er á um í 9. gr., að það þurfi að skila inn umsókn um styrk eins fljótt og hægt er en ekki síðar en innan tveggja mánaða frá tjónsatburði og enn fremur að gæta þurfi þess að spilla ekki vettvangi áður en sjóðnum sjálfum gefst kostur á að leggja mat á tjónið, því að þá er stjórninni skylt að synja umsókn. Þarna þarf að fara vel yfir að lögmætar umsóknir eða umsóknir vegna lögmæts tjóns falli ekki á milli skips og bryggju. Þetta er eitt atriði sem ég held að við þurfum að skoða í vinnslunni.
Annað er það að svæðið þar sem styrkhæft tjón hefur átt sér stað er þéttbýlissvæði Grindavíkur en ekki sveitarfélagið sem slíkt. Við þurfum auðvitað að skoða vel hvort það þýði að utan þess ramma falli aðilar sem sannarlega gætu átt á hættu að verða fyrir tjóni. Svo dæmi sé tekið þá átta ég mig ekki á því hvort veitingarekstur Bláa lónsins er innan — hann er sennilega ekki innan markanna en fellur hann undir ákvæði annarra úrræða? Þetta eru bara hlutir sem við þurfum að skoða og jafnframt hvort ekki sé einfaldara að láta þetta ná yfir sveitarfélagið í heild frekar en að beina sjónum sérstaklega að þéttbýlissvæðinu sjálfu.
Það sem hefur síðan fengið smáumræðu hér er að þarna er verið að beina sjónum að ákveðinni framleiðslu, matvælaframleiðslu, og auðvitað liggur það í hlutarins eðli að við erum fyrst og fremst að tala um sjávarútveginn en veitingafyrirtæki falla sennilega undir. Það er ekkert launungarmál að þau fyrirtæki sem hafa búið við óvissu vegna brostinna rekstrarhorfa eru víðar en í matvælaframleiðslunni. Þó að ég hafi fullan skilning á því að það sé erfitt að búa svo um hnútana að enginn verði fyrir rekstrartapi vegna þessara hamfara þá hlýtur það samt að vera ætlunin að gæta ákveðins jafnræðis þar sem hægt er. Það liggur svolítið í orðanna hljóðan þegar sagt er að erfitt sé að tryggja að enginn verði fyrir búsifjum að það verði einhver jaðartilfelli, sem verða því miður alltaf þegar verið er að búa til einhverja almenna reglu. En fjöldi fyrirtækja, og aftur vísa ég í heimsóknir og erindi, fundi með fulltrúum fyrirtækjanna í Grindavík, heyrir ekki þarna undir, þ.e. þessa skilgreindu framleiðslu sem þetta mál nær til, og upplifir fullkominn brest á rekstrarforsendum vegna þess einfaldlega að aðrar ráðstafanir ríkisins, rýmingar og annað, uppkaup á húsnæði, kipptu fótunum undan rekstrinum af því að enginn var eftir til að þjóna. Þetta held ég að sé kannski stærsta málið til að skoða og fara ofan í og velta þarf upp hvort ekki sé hægt að mæta stærri hópi í þessu máli.
Nú er málið að renna sinn gang í umræðunni hjá okkur og fer eftir það til atvinnuveganefndar. Það verður áhugavert að fá gesti úr hópi þessara fyrirtækjaeigenda og rekstraraðila sem geta fljótt og vel rýnt málið, af því að það er ekki efnismikið í þeim skilningi, og fá jafnvel hugmyndir um mögulegar breytingar sem gætu mætt stærri hópi og tryggt eins og hægt er að við lágmörkum fjölda þeirra sem lendir í því að reksturinn verði algerlega óbættur. Það er meira en að segja það þegar slíku er kippt í einu vetfangi undan fólki. Til er fjöldinn allur af eigendum lítilla fjölskyldufyrirtækja þar sem fólk hafði lagt líf og sál í ár og áratugi í að byggja upp rekstur sem gekk býsna vel í litlu og öflugu bæjarfélagi, en það er ekki sjálfgefið að slíkur rekstur lifi flutning af á nýjan stað með nýjum hópi viðskiptamanna og annað slíkt. Þetta er því alveg gríðarlegt áfall. Ég held líka að til viðbótar við hið fjárhagslega áfall gerðum við vel í því að átta okkur á því hversu mikilvægt það er fyrir andlega aðstoð við íbúa Grindavíkur að gera frekar meira en minna. Ég er sannfærð um að það mun skila sér, ekki bara fyrir þá sem um ræðir heldur fyrir samfélagið allt.
Ég ætla að láta þessu lokið í bili og hlakka til þess að vinna málið hratt og örugglega í atvinnuveganefnd og klára það hér í þingsal.