Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður talar um að það væri æskilegt ef hægt væri að ná yfir stærri hóp. Við vitum af fyrirtækjum, a.m.k. höfum við fengið heimsóknir í efnahags- og viðskiptanefnd frá fyrirtækjum sem kalla eftir aðstoð, eigendum fyrirtækja sem eru búin með allt sitt sparifé, geta ekki meir og kalla eftir aðstoð við þessar hörmungaraðstæður. Ég hef sagt það hér og segi það enn og aftur að það er ekki gott samfélag sem getur ekki gripið samfélag sem verður fyrir svona miklum hamförum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að hv. atvinnuveganefnd hafi hreinlega tíma til að gera annað en að afgreiða frumvarpið bara nákvæmlega eins og það er. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er mikilvægt frumvarp, en það er ekki nóg. Það þarf að fara í ákveðna greiningarvinnu sem ég veit ekki hvort búið er að gera í ráðuneytunum. Okkur, meira að segja þingmönnum kjördæmisins, er haldið svolítið í myrkrinu um hvað verið er að gera. Nú eru örfáir dagar eftir af þinginu og þetta frumvarp getur ekki verið í umsagnarferli í marga daga. Hvernig sér hv. þingmaður vinnuna í atvinnuveganefnd fyrir sér og möguleikann á því að ná til stærri hóps en frumvarpið gerir ráð fyrir?