Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þessa mjög svo góðu spurningu. Ég vil byrja á því að segja að ég hefði svo mikið viljað að í þessari umræðu hefðu tekið þátt þingmenn stjórnarliðsins vegna þess að þetta eru akkúrat upplýsingar sem þurfa alltaf að koma inn á borðið í umræðunni, en ekki síst þegar tíminn til að vinna málið er jafn stuttur og raun ber vitni þarf að skiptast á skoðunum. Mér sýnist að það séu eingöngu stjórnarandstöðuþingmenn sem ræða og sýna málefnum Grindvíkinga áhuga í umræðum hér, fyrir utan hæstv. ráðherra sem mælti fyrir málinu. Þrátt fyrir góðan hug er það eiginlega svo að endanlegt vald liggur ekki hjá okkur.
Varðandi tíma atvinnuveganefndar þá ætla ég að fá að segja að mikið væri nú gott ef sambýli stjórnarflokkanna undanfarið hefði verið á þann veg að þar hefðu mál unnist hratt og vel og að við öll, þingheimur, hefðum skýra mynd af því sem þau hafa hugsað sér að klára fyrir þingfrestun, fyrir sumarið. Ég verð að segja eins og er að ég hef ekki hugmynd. Ég veit að það eru nokkuð mörg þung, erfið og mikilvæg mál í atvinnuveganefnd. Ég hef ekki hugmynd um hvað meiri hlutinn hyggst klára af þeim, hvað hann hyggst reyna að klára af þeim eða hvað hann er nú þegar búinn að ákveða að reyna ekki að klára. Svarið við spurningu hv. þingmanns, eins mikilvæg og sú spurning er, veltur því miður bara á þessu. Vonandi skýrist þetta fyrr en síðar. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, við eigum ekki nema örfáa þingdaga eftir miðað við starfsáætlun þingsins en ég geri ráð fyrir því að við hljótum að fara eina ef ekki tvær vikur fram yfir ef klára á þau mál sem fyrir liggja með einhverjum sóma. Það skýrist vonandi fyrr en síðar.