154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við verðum auðvitað núna að klára þetta þing. Frumvarpið sem við vorum að ljúka 1. umræðu um hér áðan varðar líka fyrirtæki að hluta til, rekstrarstuðning sem reyndar lítið hefur verið notaður. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það hafi verið rætt í hv. atvinnuveganefnd hvers vegna fyrirtækin sækja ekki í þessa rekstrarstyrki. Auðvitað er umsókn enn þá opin fyrir þá en það eru ekki margar milljónir sem hafa farið út af þeim áætlaða reikningi fyrir rekstrarstyrki fyrirtækjanna. Það sem ég hef einnig áhyggjur af varðandi stuðning við fyrirtækin er að í frumvarpinu sem við ræddum áðan og í frumvarpinu sem við ræðum núna er lokadagur. Þetta er bara tímabundið og búið er (Forseti hringir.) að ákveða að framlengja ekki ákvæði, t.d. um rekstrarstyrki, lengur en út þetta ár. Ég hef áhyggjur af því að hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) ætli ekki að gera meira fyrir Grindvíkinga og að þeir sem hafa ekki fengið úrlausn sinna mála muni ekki fá hana.