Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég verð að segja að ég er ekki viss um af hverju ekki fleiri fyrirtæki hafa nýtt sér þetta ákvæði. Það hefur ekki verið rætt í atvinnuveganefnd í það minnsta. Ég get ímyndað mér, kannski bara með því að reyna að setja sjálfa mig í þau spor, að þegar verið er í smáskammtalækningum vilji menn kannski bíða og sjá hver heildarmyndin er og hvar menn falla best undir og trúi því að það komi einhver heildarpakki sem henti vel. Ég held líka að flestir eigi þá von að þetta fari aftur í fyrra horf, að það sé eitthvert bil sem þurfi að brúa og svo geti fólk tekið boltann áfram og farið í sinn gamla rekstur. (Forseti hringir.) Svo smám saman raungerist það að það sé kannski minna líklegt, a.m.k. fyrir einhverja tegund rekstrar, og þá þarf að koma til annars konar stuðningur. En aftur þá vantar fyrst og fremst upp á að stóra myndin sé rædd á þessum vettvangi með tilheyrandi hugmyndum og lausnum.