154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hjartanlega fyrir ræðu hennar. Allt þetta mál er okkur hjartans mál. Það sem vakti athygli mína sérstaklega og mig langaði að viðra við hv. þingmann er að þann 4. júní síðastliðinn í atvinnuveganefnd komu fulltrúar matvælaráðuneytis að ræða við okkur um stöðu mála og kom þar fram spurning um hvort ráðuneytið hefði upplýsingar um þegar orðið tjón sem félli hugsanlega undir gildissvið laganna. Nú vorum við að fá minnisblað ráðuneytisins í dag. Það hafði verið leitað hófanna hjá fulltrúum forsætisráðuneytis, starfshópi sem hafði verið skipaður á vegum þáverandi forsætisráðherra til að taka utan um málið, og í raun og veru fengum við ekkert svar. Bara akkúrat ekkert svar. Er þetta ekki svolítið lýsandi fyrir vinnubrögðin sem verða sjö mánaða gömul 10. júní næstkomandi? Mánuðum áður en þessar hörmulegu náttúruhamfarir áttu sér stað þá vitum við öll að það hafði verið gífurlegur undanfari, langur undanfari jarðhræringa og allt hvað eina. Vitað var af kvikusöfnun og vitað að það stefndi í gos, ekki akkúrat hvaða dag en einhvern tíma á þessum tíma sem verður síðan 10. nóvember í fyrra. Mig langar til að velta því upp: Hvernig finnst hv. þingmanni þessi vinnubrögð vera og þessar móttökur á þessu minnisblaði sem atvinnuveganefnd barst í dag og í rauninni þær engu sviðsmyndir sem ríkisstjórnin var búin að teikna upp og gera ráð fyrir að þyrfti að gera ef upp kæmi sú staða sem allir virtust vita að væri að koma og skella á nema hæstv. ríkisstjórn?