154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[17:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland kærlega fyrir andsvarið. Þetta er auðvitað rétt. Svo ég beini fyrst athyglinni að því minnisblaði sem hv. þingmaður nefnir, sem er áhugavert, þá skilaði það sér fljótt og vel og ég hef það hér í höndunum. Starfshópurinn hefur ekki upplýsingar um óbeint tjón, tók það fram að á fyrstu mánuðum eldsumbrotanna munaði vissulega oft mjóu en enn fremur að það gæti verið eitthvert tjón sem honum var ekki kunnugt um. Það er það sem sem hv. þingmaður er að spyrja um, hvernig sú staða getur verið uppi þegar frumvarpið liggur fyrir að þetta sé ekki meðal þeirra upplýsinga sem liggja að baki samningu frumvarpsins. Síðan koma líka fram upplýsingar í minnisblaðinu um að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi viti til þess að fyrirtæki hafi orðið fyrir óbeinu tjóni vegna þess að þau komust ekki í bæinn í tvær og hálfa viku og tjón hafi orðið á hráefni, fiski sem var í vinnslu, en það vantar fjárhagslegar upplýsingar um það tjón. Þetta liggur einfaldlega ekki fyrir og ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað eru þetta lykilupplýsingar sem eiga að liggja fyrir þegar við erum að skoða þetta. Mikilvægt er m.a. hvort þetta á að vera afturvirkt eða ekki, hvað þetta eiga að vera miklir peningar, hversu vítt við getum farið og hvað við getum gert ráð fyrir miklu tjóni í framhaldinu o.s.frv. Eins og hv. þingmaður kemur svolítið inn á í seinni hluta andsvarsins — viðbrögðin hafa á margan hátt verið algjörlega frábær við þessum fyrsta punkti sem er að koma fólki í skjól og ég tel ekki að um það sé endilega deilt, þ.e. áhersluna á líf fólks — þá hefði þessa undirliggjandi vinnu, að vega og meta, fara yfir kostnað, óbeinan og beinan, hvað við getum gert, hverjar líkurnar eru ef illa fer, ef staðan verður skárri o.s.frv., til að hafa það tilbúið hvernig við bregðumst við, mátt vinna betur.