Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti fyrir mér þegar við tölum um hvort þetta eigi að vera afturvirkt eða hversu lengi og hvernig við eigum að taka á hlutunum — í fyrsta lagi á það að sjálfsögðu að vera þannig. Ég spyr hv. þingmann og bið hana að deila heila með mér um það hvort það verði ekki að sjálfsögðu að vera a.m.k. til þess tíma sem fólki er gert ómögulegt að sinna sínum verðmætum og er rekið burt úr bænum sínum, hvort það liggi ekki í hlutarins eðli.
Hitt er þetta: Meinar hv. þingmaður virkilega að henni þyki ríkisstjórnin hafa brugðist nóg við húsnæðisvanda Grindvíkinga, sem við sjáum að eru enn í vanda? Við vissum að fólk var á vergangi hér fyrir jólin og bjó jafnvel í sumarbústöðum einhvers staðar uppi í sveit þar sem var hvorki vatn né rafmagn. Ef við teiknum þetta upp eins og það blasir við mér þá eru sjö mánuðir þann 10. júní síðan þessir hörmungaratburðir áttu sér stað. (Forseti hringir.) Finnst hv. þingmanni þessi ríkisstjórn hafa sinnt þeim verkefnum sem hún ætti að gera fyrir samfélag sem lendir í slíkum sárum?