Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kemur hér með áhugaverðan punkt eins og hans er von og vísa. Þetta er klárlega eitthvað sem verður áhugavert að fara í gegnum og kannski sýnir þetta tiltekna dæmi nú ástæðuna fyrir því að alla jafna höfum við fyrirkomulagið þannig að 1. umræða í þingsal hefur átt sér stað áður en starfsmenn eða fulltrúar ráðuneyta koma á fund viðkomandi nefndar til að fara yfir málið því að það á að gefast færi á að taka spurningar úr umræðunni hér inni í þingsal og bera þær upp, en við munum hafa tækifæri til þess engu að síður. Þessi orð hv. þingmanns minntu mig eiginlega á eitt sem ég gleymdi að koma inn á áðan og það eru skilyrðin fyrir því að fá styrk úr sjóðnum; sýna fram á hið óbeina tjón og að það megi sannarlega rekja til þessara náttúruhamfara, sækja um innan tilskilins tímafrests, vera með starfsemi innan þessara tilteknu greina sem tilteknar eru hér, verði það látið duga. En síðan segir að markmiðið með þessum lögum sé að tryggja áframhaldandi starfsemi í Grindavíkurbæ þannig að þetta er raunverulega frekar aðgerð í þá átt en að bæta þessum aðilum sem voru með starfsemi í Grindavíkurbæ það tjón sem þeir urðu fyrir vegna náttúruhamfaranna. Ef fyrirtæki sem eftir það tjón sem þau urðu fyrir ákveða að hasla sér völl annars staðar, eru þau þá ekki styrkhæf úr þessum sjóði? Ef tjónið var slíkt að starfsemin er ónýt, eru þau þá ekki styrkhæf? En ef það er svo langt í að þeirra viðskiptamenn snúi aftur í bæinn eða yfir höfuð komi ekki af því að ríkið hvatti þá til sölu íbúða? Hvar liggur línan? (Forseti hringir.) Það finnst mér líka áhugavert og eitthvað sem við þurfum að fara vel yfir.