154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[18:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Áður en hamfarirnar dundu yfir í Grindavík og maður keyrði um bæinn mátti sjá að þarna var stöndugt sveitarfélag. Það var alveg ljóst þegar maður fór um bæinn að það voru peningar í bænum. Maður sér það á húsunum og lífinu í bænum, félagslífinu, byggingunum, þjónustunni, þetta var mjög blómlegur bær. Síðan byrjar jörðin að skjálfa, ég man ekki nákvæmlega hvenær stóru skjálftarnir komu, einn var a.m.k. snemma árs 2021 og þá byrjar jörðin að láta vita að það sé eitthvað að gerast og það megi búast við — við vissum svo sem ekki við hverju mátti búast en vísindamenn sögðu að þarna væri eitthvað að gerast. Við fengum að fylgjast með vísindamönnum í sjónvarpssal lýsa myndum sem teknar voru með gervitunglum og spennan byggðist upp um hvað myndi nú gerast og við fengum nokkur gos á stöðum sem skiptu ekki miklu máli en voru svona bara skemmtileg túristagos og enginn maður með mönnum nema hann gengi að gosunum þarna, þessum fyrstu.

Síðan er það, frú forseti, í nóvember í fyrra þar sem bókstaflega allt leikur á reiðiskjálfi í Grindavík og reyndar á Suðurnesjum öllum. Ég var satt að segja heima hjá mér í Garðinum og vissi ekki hvað var eiginlega að gerast. Ég hélt jafnvel að skaginn væri hreinlega að rifna af, það gekk svo mikið á. Þegar við þingmenn nokkrir keyrðum með björgunarsveitarmönnum um Grindavík í desember eftir að allir voru farnir úr bænum, þetta var í byrjun desember og það var aðeins byrjað að reyna að laga, setja ofan í holur og sprungur, þá fékk ég það á tilfinninguna að það yrði langt þangað til einhver myndi búa í bænum. Það þurfti að gera svo margt. Ég sá ekki fyrir mér að foreldrar ungra barna vildu flytja aftur í bæinn í bráð, ekki fyrr en búið væri að fylla upp í allar sprungur og finna þær og skima ofan í jörðina og gá hvar holrúm leynast. Síðan þá hafa orðið meiri skemmdir í bænum og fleiri sigdalir, fleiri sprungur, fleiri hús eyðilagst.

Fólkið í Grindavík hefur búið við neyðarástand hreinlega svo mánuðum skiptir og því fylgir tilfinningalegt rót, það er nokkuð víst. Það er í raun óleysanlegt áfall sem þau hafa þurft að ganga í gegnum og við erum öll vanmáttug gagnvart slíkum ógnarkröftum jarðar. Þessu ástandi hefur fylgt mikil óvissa, kvíði og óöryggi. Sennilega er þetta stærsta samfélagslega verkefni sem við höfum staðið frammi fyrir, að reyna að koma sem flestum Grindvíkingum til bjargar. Þeir þurfa sannarlega og hafa þurft á aðstoð okkar allra að halda. Auðvitað var í byrjun mest aðkallandi að finna húsnæði þar sem þau gætu búið og komið sér upp heimili og búið til stöðugleika í kringum börnin og heimilislífið. En það var krefjandi og það eru ekki allir búnir að fá lausn sinna mála í þeim efnum og búa við óviðunandi aðstæður, mörg hver, einkum vegna þess að fyrir er húsnæðisvandi í landinu.

En hugmyndin var sú til að byrja með, eftir íbúafund sem haldinn var í Laugardalshöll — sem var nú svona, held ég, ákveðin vakning fyrir stjórnvöld og bæjarstjórnina í Grindavík, því sjálfsagt var fólk og kannski við öll í ákveðinni afneitun til að byrja með og héldum jafnvel að það myndi ekki líða langur tími þangað til Grindavík myndi aftur lifna við og verða aftur blómlegt samfélag og fólkið gæti farið aftur heim en þegar íbúarnir stóðu upp á íbúafundinum í Laugardalshöll og báðu um uppkaup á húsunum sínum svo þau gætu komið einhverju standi á sitt líf annars staðar en í Grindavík þá var eins og stjórnvöld hefðu áttað sig á að þetta gengi ekki lengur. Og þegar Bryndís Gunnlaugsdóttir stóð upp, íbúi í bænum, og sagðist vona að húsið hennar færi undir hraun, þannig leið henni, til þess að þau gætu farið að skipuleggja líf sitt að nýju og sjá fyrir sér einhverja framtíð þá var ákveðið að fara í það að kaupa upp íbúðarhúsnæði í bænum.

Hugmyndin var sú að fyrst ætti að bjarga heimilunum og frumvarpið var samið í kringum Þórkötlu, fasteignafélagið sem stofnað var til að kaupa upp húsnæði. Nú er það þannig eftir síðasta gos, sem nú stendur enn yfir, að það eru næstum allir sem mögulega áttu þennan valkost búnir að velja að selja húsin sín til Þórkötlu en enn eru heimili og einstaklingar sem féllu ekki undir þá mælistiku sem lagt var upp með í frumvarpinu um Þórkötlu og þau hafa ekki enn þá fengið úrlausn sinna mála.

Þegar við sem vorum í þverpólitíska hópnum sem vann að frumvarpinu um Þórkötlu — þegar farið var yfir það hvernig staðan væri á einstaklingum í bænum og fjölskyldum var okkur lofað því að þetta væri bara byrjunin og jaðartilvikin sem kölluð voru yrðu gripin en það hefur ekki verið gert og því miður sýnist mér á þeim frumvörpum sem við höfum verið að ræða hér í dag að það standi ekki til.

Fyrr í dag lukum við hér við 1. umræðu um frumvarp þar sem farið var yfir úrræði sem voru að vísu aðeins bætt, en þetta er sem sagt rekstrarstuðningur sem hafði tekið gildi 1. mars á þessu ári og hefði átt að renna út núna næstu daga. Sá stuðningur var framlengdur til áramóta. Sá stuðningur hefur ekki mikið verið notaður, reyndar sáralítið, og mér finnst það vera athugunarefni hvernig stendur á því að fyrirtæki sjá sér ekki hag í því að sækja sér þennan rekstrarstuðning. En það er auðvitað ekki of seint. Það eru aðeins 27 fyrirtæki sem hafa sótt um þennan rekstrarstuðning sem stendur til að framlengja. Það er auðvitað möguleiki til að sækja um en lokin eru síðan um áramótin.

Það sama er með húsnæðisstuðninginn. Það var verið að framlengja hann af því að hann átti að grípa fólkið sem þarf að reka í rauninni tvö heimili og hann mun vera í gildi til áramóta jafnframt, eins og frumvarpið um Þórkötlu gerir ráð fyrir. En auðvitað eru alltaf færri og færri sem þurfa á þeim stuðningi að halda þegar þau eru búin að versla við Þórkötlu með sitt húsnæði í Grindavík.

Síðan var það framlengingin á launastuðningnum og sú framlenging er bara til tveggja mánaða. Í frumvarpinu sem við vorum að klára hér fyrr í dag er lagt upp með að það eigi ekkert að gera neitt meira. Þannig að þegar húsnæðisstuðningurinn rennur út þá tekur bara við almennur húsnæðisstuðningur og þegar launastuðningurinn rennur út þá tekur bara Atvinnuleysistryggingasjóður við ef einhverjir verða atvinnulausir eftir, sem líklegt er eftir síðustu fréttir af uppsögnum.

Fyrirtækin í Grindavík hafa sent okkur ákall, eða eigendur fyrirtækjanna og samtök þeirra, bæði í tölvupóstum og skilaboðum á samfélagsmiðlum, með símtölum og fundum og biðja um aukinn stuðning. Þetta frumvarp sem hér er til umræðu og ég geri ráð fyrir að við styðjum öll tekur ekki á þeim málum og það er mikilvægt að við skoðum hópana sem um ræðir og hvað er hægt að gera og hvernig er hægt að víkka út stuðninginn. Við þurfum að taka á einstaklingunum sem eru jaðartilfelli og hafa ekki passað undir mælistikurnar og úrræðin sem þó hafa virkað fyrir nokkuð marga. Þau þurfa að fá sinn stuðning og síðan þurfum við líka að skoða fyrirtæki sem geta starfað í Grindavík og það er verið að taka á því með þessum sjóði, afurðasjóðnum hér sem er eins konar trygging ef það verður tjón á matvælum og matvælaframleiðslu og fóðri í Grindavík. En síðan eru það þjónustufyrirtæki sem treystu á að þjónusta samfélagið og þau geta hvergi verið nema í Grindavík, alls konar þjónusta, bæði við fyrirtæki í Grindavík og við fólkið sem þar bjó. Þar eru mörg fyrirtæki sem eru í miklum vanda og mörg bara munu ekkert fara af stað aftur og fólk er búið að finna sér annan farveg en hefur orðið auðvitað fyrir stórkostlegu tjóni sem það hefur ekki fengið bætt. Svo eru hin sem gætu hugsanlega sótt sér styrk í rekstrarstuðninginn, fyrirtæki sem geta haslað sér völl annars staðar en í Grindavík.

En það þarf að fara yfir þessa hópa og ég, frú forseti, hef áhyggjur af því að stjórnvöld séu búin að ákveða að gera ekki meira. Það getur vel verið að það sé skynsamleg ráðstöfun í augum einhverra en við sem þekkjum alls konar jaðartilfelli og varíasjónir sem þarf að taka á getum ekki verið sammála því. Núna erum við á síðustu dögum þessa þings og það eru óteljandi mál sem liggja fyrir og nefndirnar, efnahags- og viðskiptanefnd annars vegar og atvinnuveganefnd hins vegar, munu hafa lítinn tíma til að smíða þá breytingartillögur til að reyna að grípa stærri hóp sem þarf á stuðningi að halda.

Ég vildi segja, forseti, af því að það var talað um það hér í upphafi og ég gleymi því ekki hvað ég var stolt og ánægð með ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar þeir komu í pontu hver á eftir öðrum og sögðu: Þegar 1% af Íslendingum lendir í vanda þá komum við hin 99 prósentin og björgum þeim. En því miður hefur þetta ekki gengið alla leið. Auðvitað hefur margt verið gert en við þurfum að grípa fleiri. Grindvíkingar munu, jafnvel þó að þessum hópum sem ég hef verið að tala um hér verði mætt, samt þurfa að bera fjárhagslegt tjón og andlega vanlíðan til að vinna úr eftir þessa erfiðu stöðu.

Frú forseti. Tíminn er liðinn. Ég styð þetta frumvarp og treysti því að atvinnuveganefnd fari vel yfir það og reyni að smíða breytingartillögur til að mæta fleirum sem þurfa á aðstoð að halda.