154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[18:23]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir greinargóða yfirferð yfir þetta frumvarp. Ég ætla bara að leyfa mér að segja að ég er skoðanasystir hennar um að styðja þetta mál en deili um leið þeim áhyggjum sem ég heyri hana fara yfir í tengslum við málið. Annars vegar þessi gagnrýni um að það þurfi að fara yfir hópana sem um ræðir, það hvort þetta frumvarp sé yfirleitt að kasta út nógu stóru neti, hvort það sé að ná til þeirra hópa sem á þurfa að halda. Ég tek líka undir orð hv. þingmanns um það að maður var stoltur í upphafi umræðunnar þegar talað var um einhug og samstöðu á Alþingi og að það ætti að gera meira en minna. En ég hef auðvitað líka áhyggjur, og deili þeim með þingmanninum, miðað við hvernig dagskrá þingsins lítur út og þar sem þetta er að birtast núna, af því hvort tíminn sé nægur til. Þar vildi ég kannski aftur árétta það sem ég sagði hér í ræðustólnum fyrr í dag, að mér hefur fundist svo sérstakt hvað það hefur verið lítill þungi í þeim aðgerðum sem snúa að atvinnulífi, sem snúa að fyrirtækjum. Auðvitað þurfti að koma fólki í skjól í upphafi og það þurfti að horfa á þessar húsnæðistillögur en síðan er liðinn svo langur tími. Atvinna og afkoma, það verður auðvitað ekki sundur skilið frá samfélaginu eða frá fólkinu. En ég hefði áhuga á að heyra frá hv. þingmanni ögn nánar, af því að ég veit að hún hefur verið í sambandi við fólk af svæðinu og við höfum svo sem öll tekið fundi og fengið tölvupósta, um ákall þessa hóps og hverjar áhyggjurnar þar eru.