154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[18:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði alveg skilning á því að það þurfti að taka utan um heimili fólksins fyrst. Það þurfti að huga að börnunum, það þurfti að koma þeim í skóla. Það þurfti að huga að eldra fólki sem þarf að komast í samfélög sem veita því þjónustu og reyna að koma einhverjum stöðugleika í kringum fjölskyldurnar. Það var eðlilegt fyrsta skref. En þetta hefur allt tekið of langan tíma. Meira að segja uppkaupin, sem ég held að séu mjög jákvæð, að taka bara áhættuna af fólkinu svo það þurfi ekki að bíða eftir því að sjá hvort húsin fari undir hraun eða ekki, hafa verið mjög gott skref. En það tók líka mjög langan tíma einhvern veginn að fara af stað og fólkið beið og hafði væntingar um annað. Síðan átti auðvitað að fara í það að taka á málum lögaðila, taka á málum fyrirtækja og það hefur tekið ótrúlega langan tíma. Ég er svolítið hissa á því satt að segja að þetta skuli koma hér. Það var augljóst að það þurfti t.d. að framlengja rekstrarstyrkina og launastyrkina og húsnæðisstuðninginn. Það þurfti að gera það og af hverju var beðið með það fram á síðasta dag? Sama er að segja um þessa hugmynd um að koma í staðinn fyrir tryggingar með þessum sjóði. Það var svo sem ljóst fyrir löngu en ríkisstjórnin ákvað að draga þetta þangað til núna og það getur valdið vanda.