Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Bara þannig að ég taki upp lokaorð hv. þingmanns þá getur það valdið vanda og það getur valdið viðbótartjóni. Eins og ég nefndi hérna í byrjun er markmið þessa frumvarps í mínum huga mjög gott og ég styð að ná þá utan um eitthvert það tjón sem ekki fellur undir tryggingavernd, en þetta bara hefur setið í mér. Mér finnst svo augljóst að fólkið og atvinnulífið eru hagsmunir sem verða ekki í sundur skildir og mér er svo minnisstætt að hafa staðið hér 1. febrúar í samtali við þáverandi hæstv. fjármálaráðherra þar sem við vorum einmitt að brýna hana til dáða í þeim efnum. Auðvitað þurfti að huga að þessum frumbjörgunaraðgerðum fyrst. Það voru alls konar hagsmunir aðrir eins og þingmaðurinn er að nefna; börnin, gamla fólkið, húsnæði og skjól. En það er mér mikil ráðgáta hvað þetta er að gleymast, rekstraraðilar, atvinnulíf. Við heyrum og það hækkar stöðugt þetta ákall og ég (Forseti hringir.) bara vona innilega að tíminn hjá stjórnarmeirihlutanum verði nægur til að bæta því í þetta mál sem þarf til þess að það geti náð fram markmiðum sínum.