Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu, Oddnýju G. Harðardóttur. Betra er seint en aldrei. Ég hef oft verið að hugsa í þessum málum Grindvíkinga að þeir hafi örugglega oft hugsað að það sé frekar seint sem sumir hlutirnir ske. En það er eitt sem ég furða mig á í þessu og bara eiginlega trúi ekki, og hvort hv. þingmaður sjái þá sýn með mér, sem er að þessi lög eiga að taka gildi bara við samþykkt. Hvers vegna í ósköpunum og hvað er það í fari þessarar ríkisstjórnar, þessi tilfinning að vilja alltaf skilja einhverja út undan? Af hverju er ekki bara sagt: Heyrðu, frá því að við rýmdum bæinn, frá því að það byrjaði að verða tjón í bænum þá munu þeir sem urðu fyrir tjóni og geta sannað það fá það bætt? Af hverju að segja — ég veit um veitingamann, sem ég held að ég hafi sagt frá tvisvar eða þrisvar, sem missti allan lagerinn. Þetta var veitingamaður sem var að reyna að hjálpa þeim sem voru í bænum við björgun, bæði við varnargarðana og annað, með fæðu og annað og hann missir kannski allan lagerinn en af því að hann gerði þetta ekki eftir að lögin eru samþykkt þá fær hann ekkert vera með. Af hverju er verið að refsa honum fyrir slóðaskap ríkisstjórnarinnar? Ég vona heitt og innilega að þegar þetta fer inn í nefnd þá verði þessu breytt. Það verði bara séð til þess að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna aðgerðanna og ástandsins í bænum fái að fara inn í þetta. Hvort hún sé ekki sammála mér um að þetta sé þörf breyting.