Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég tek undir það að þetta er eitt af því sem atvinnuveganefnd hlýtur að fara yfir. Hér er talað um tjón sem kannski verður og kannski ekki frá því að lögin taka gildi, ef þetta frumvarp verður að lögum, frá þeim gildistíma og út þetta ár. Það er náttúrlega betra en ekkert en samt er þarna fólk, eins og hv. þingmaður lýsir, sem hefur orðið fyrir tjóni og hefur ekki fengið það bætt. Markmiðið með þessu frumvarpi er að treysta áframhaldandi starfsemi í Grindavíkurbæ og það er sem sagt við þær aðstæður sem þar eru, sem eru að mörgu leyti afar slæmar því að það er engin þjónusta í bænum og annað slagið verður vatnslaust og rafmagnslaust og allt þetta. Það eru alla vega aðstæður sem geta verið uppi og sem geta líka skert rekstrarhæfni fyrirtækjanna í bænum. Ég skil mjög vel að það sé verið að reyna að sjá til þess að það sé hægt að halda uppi atvinnustarfsemi í bænum í þeirri von að það verði síðan hægt að byggja aftur upp samfélagið í einhvers konar mynd, þó að það verði aldrei alveg eins því að eins og hefur komið fram í umræðunni eru tengslin á milli samfélagsins og atvinnustarfseminnar náttúrlega órjúfanleg. En það er líka ekkert samfélag sem er eftirsóknarvert að búa í þar sem eru engin börn, þar sem er hættulegt að ala upp börn í. Þannig að það er svolítið langt í það að samfélagið geti aftur verið þarna á fullu í bænum eins og ástandið er þar núna.