154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[18:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég er alveg innilega sammála henni. Maður verður samt einhvern veginn hvumsa vegna þess að við vitum að það hefur orðið tjón þarna og ég get ekki ímyndað mér að það sé eitthvert óbrúanlegt bil milli þess tjóns sem menn hafa þegar orðið fyrir og sem þeir eru kannski að verða fyrir núna. Við getum alveg tekið dæmi: Einni mínútu áður en við samþykkjum þetta frumvarp eða nokkrum klukkutímum áður verður tjón og viðkomandi fær það ekki bætt en svo klukkutíma seinna verður annar fyrir tjóni og sá fær það bætt. Við sjáum öll og gerum okkur grein fyrir því að þetta er alveg ótrúlegt óréttlæti. Ég get ekki ímyndað mér þegar maður sé fjárhæðirnar í þessu og annað að það muni valda einhverjum fjárhagslegum óskapnaði þótt það verði séð til þess að þeir sem geta sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni nú þegar fái það bætt rétt eins og allir þeir sem lenda í nákvæmlega eins tjóni eftir að við erum búin að samþykkja lögin. Ég bara vona heitt og innilega að það verði niðurstaðan.