Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alveg gott og blessað að koma til aðstoðar, leggja ýmislegt út, að samfélagið leggi hjálp inn í þessar aðstæður sem eru þarna. En mér finnst alltaf vanta hina söguna: Hvað ef vandamálið er stærra heldur en við erum að glíma við? Hvað erum við að koma í veg fyrir? Af hverju erum við að halda úti atvinnustarfsemi þarna núna á meðan þessi hætta er í gangi? Af hverju bíðum við ekki þar til hættan er búin, sjáum hvernig aðstæður eru þá og hefjum atvinnustarfsemi aftur ef það er tilefni til þess? Spurningin hvort það þurfi þetta úrræði — mér finnst þurfa svar við því hvernig aðstæðurnar líta út ef það verður einfaldlega ekki reynt að halda uppi atvinnustarfsemi þarna miðað við ástandið eins og það er núna. Eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns er engin þjónusta þarna. Jú, jú, það eru tæki þarna og ýmislegt til atvinnustarfsemi en þetta er kostnaðurinn við að halda henni gangandi. Hver er þá kostnaðurinn við að gera það ekki og færa starfsemina tímabundið, vonandi, eitthvað annað? Kostar það minna? Er það minna vesen? Eða er þetta ódýrara þegar allt kemur til alls? Þess vegna er áhugavert að skoða í samhengi við það að já, ef það kemur skaði í kjölfar setningar þessara laga, þarf þá ekki að bæta upp skaðann sem hefur þegar orðið? Hinn möguleikinn á móti er: Af hverju þurfum við að gera það yfirleitt? En mér finnst vanta svörin við því til þess að ég geti tekið betri ákvörðun um það hvort þetta sé betri leið heldur en valmöguleikinn sem við höfum í hendi. (Gripið fram í.)