154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[18:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru fínar vangaveltur hjá hv. þingmanni og alveg nauðsynlegt að horfast í augu við raunveruleikann og það getur verið sárt og erfitt. Ég get haft ákveðinn skilning á því að þarna eru stór fiskvinnslufyrirtæki sem hafa verið stór hluti af samfélaginu og eru stóru stoðirnar undir samfélagið í Grindavík og að fólk geti varla hugsað sér hvað yrði um Grindavík ef skipin með kvótann sigldu annað og kæmu ekki aftur. Ég get mjög vel skilið það. En það þarf auðvitað að meta það með köldum haus en heitu hjarta hvað sé klókt að gera í þessari stöðu. Ég sem Suðurnesjamanneskja, sem er náttúrlega hlutdræg í þessum efnum, styð að það sé allt gert til þess að halda eins lengi og hægt er í þessar stoðir sem væri þá hægt að byggja samfélagið aftur upp á að nýju. En það má auðvitað ekki í þeim efnum, hvorki fjárhagslega né tilfinningalega, vera með einhverja draumóra. Við verðum líka bara að reyna að meta hvað er hægt og hvað er ekki hægt. Höfnin er góð. Aðstæður í kringum höfnina eru góðar og það er hægt að halda þessari starfsemi þarna uppi. En það er áhætta og þess vegna erum við að ræða þetta frumvarp núna.