154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[18:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt þess vegna sem mér leist svo vel á þá hugmynd sem framkvæmdastjóri Vísis, stóra fiskvinnslufyrirtækisins í Grindavík, kom með stuttu eftir stóru skjálftana þegar þurfti að rýma bæinn. Hann sagði: Af hverju finnum við ekki, byggjum við ekki upp hverfi í bæjunum á Suðurnesjum? Það voru til lóðir þar. Það hefði verið hægt að byggja upp svæði þar sem Grindvíkingar hefðu haft forgang í Reykjanesbæ, í Vogum, í Suðurnesjabæ. Það var meira að segja búið að teikna upp, sveitarfélögin voru búin að láta vita hvaða atvinnuhúsnæði væri laust til þess að bæði fyrirtæki og fólk myndu þá bara flytja í annað hverfi á Suðurnesjum. Hann auðvitað lagði til að bæirnir myndu sameinast í eitt, sem hefði verið mjög gott að gera og mér finnst það enn góð hugmynd. En það hefði verið frábært ef við hefðum hlustað á hann, öll og þeir sem valdið hafa, og við hefðum farið þessa leið. Þá værum við ekki í þessari stöðu núna.