Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir hans ræðu. Það var gaman að heyra þessa sögu. Hann fékk bara humar og steik fyrir björgunarstörf. Hann var þar af leiðandi líka að bjarga matvælum. Það er snilld. Það er tvöföld björgun.
Ég fór að hugsa þegar ég las þetta frumvarp, af því að það á að taka gildi þegar það verður samþykkt, að það er alltaf verið að skilja einhvern út undan. Þetta er sama tilfinning og ef þú værir með tvö íbúðarhús eða einhverjar byggingar. Önnur myndi brenna og nokkrum dögum seinna myndi hin brenna. Þær væru báðar alveg eins. En þá vildi svo óheppilega til að þessi brann aðeins á undan og þá fæst ekkert úr tryggingum, en þegar hin brann fékkst allt bætt. Þetta er tilfinningin sem ég fæ. Þetta á ekki bara að ná afturvirkt frá því að þessar hörmungar byrjuðu, frá því að tjón varð vegna þessara hörmunga.
Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann er ekki sammála mér um það að þetta er einfalt mál. Við eigum að hætta algjörlega í þessum málum, sem við erum búin að vera að gera hvað eftir annað bæði í Grindavíkurmálum og öðrum málum, að skilja einhvern út undan, að segja alltaf: Heyrðu, þú færð, en æ, æ, þú færð ekki neitt. Þú varst svo óheppinn að þetta gerðist á undan hjá þér. En samt er hann í sömu krísunni. Það var ekkert annað sem gerðist, hvort sem það verður fyrir gildistöku þessarar lagasetningar eða eftir hana. Tjónið er hið sama. Og hvort það sé ekki ósköp eðlilegt að við sjáum til þess að þeir sem urðu fyrir tjóni vegna þessara hamfara í Grindavík út frá þessu frumvarpi fái það bætt.