154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[19:01]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að öll börn í dag læri að það á ekki að skilja út undan. Það er ljótt og það er kallað einelti. Ríkisstjórnin á ekki að stunda einelti og ekki við heldur sem sitjum hér inni. Ég held að við séum meira að segja með eineltisáætlun innan þingsins. Kannski þurfum við að taka hana líka inn í þau lög sem við setjum. Ég er að sjálfsögðu sammála hv. þingmanni að við eigum ekki að skilja út undan. Þess vegna viljum við fá gögn um það hvaða kostnaður hefur nú þegar fallið á þau fyrirtæki sem hafa tapað hráefni og afurðum. Þá getum við tekið upplýstar ákvarðanir um það hvort við séum ekki örugglega að passa að skilja engan út undan. Ég mun þrýsta á um það í nefndinni að við skoðum þetta alvarlega og taka það til alvarlegrar athugunar hvort breytingartillaga við 1. gr. sé ekki eitthvað sem við þurfum að gera.