Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég snerti fyrst á þessu með að skilja út undan. Við erum oft að reyna að spara einhverja aura og áttum okkur ekki á því að það hefur stórar og margar afleiðingar ef við horfum á það hvernig er sparað gagnvart öryrkjum og öðrum. Það leiðir til fátæktar, sem leiðir til verri heilsu, sem leiðir til meiri sjúkrahúskostnaðar. Við þurfum að átta okkur á því hvaða áhrif hlutir hafa.
Varðandi það hvað þetta kom seint fram er ég algerlega sammála. Þetta átti að vera löngu komið fram. Varðandi þessa nefnd sem á að skilgreina, eða stjórn sjóðsins, þá virðist það vera byggt á módelinu um Bjargráðasjóð. Maður gæti spurt sig hvort ekki hefði verið hægt að nota það. Þar eru kannski bara Framsóknarmenn og bændur en það þarf að setja einhverja flokksgæðinga úr öðrum flokki yfir þetta. Ég veit það ekki. Kannski er hér verið að bæta við einni nefnd. Það er að stækka báknið að mati Sjálfstæðisflokksins. Ég veit ekki alveg hvernig við eigum að leysa þetta. Kannski er hægt að fá hæstv. umhverfisráðherra í að sameina, hann er voða mikið í að sameina hluti núna. Kannski verður þetta bara Sjóður Íslands og hann sér um alla sjóði. Ég veit það ekki.
Ég held að öllu gríni slepptu að það sé hægt að finna gott fólk í þennan sjóð, fólk sem tekur góðar ákvarðanir. Kannski vantar eitthvað inn hér um að það sé hægt að setja reglugerðir um það hvernig eigi að skipa og hvernig þessi sjóður eigi að virka betur en stendur hér. Ég veit það ekki. (Forseti hringir.) En við skoðum það í atvinnuveganefnd.