154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[19:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög gott andsvar. Ég er algjörlega sammála. Við — þá meina ég ríkisstjórnin — þurfum að leggja miklu betri vinnu í það hvernig frumvörp eru unnin. Í frumvarpinu um lagareldi var fullt af hlutum sem búið er að benda á af stofnunum ríkisins. Það hreinlega gengur ekki upp. Það þurfti að skýra út fullt af tæknilegum atriðum sem þarf að breyta vegna þess að þeir sem sömdu frumvarpið höfðu ekki innsýn í það hvernig hlutirnir gerast í undirstofnunum. Það var ekki haft samráð milli þessara stofnana. Þetta er hlutur sem við þurfum að bæta vegna þess að frumvörp koma mjög seint fram hér á þingi. Það þýðir að þau fá ekki eins mikla umfjöllun og þau ættu að fá til þess að þau séu vel unnin. Þegar þau eru ekki nógu vel unnin og ekki er haft nógu mikið samráð á undan þá gerist þetta.

Í þessu ákveðna frumvarpi kemur fram í 5. kafla greinargerðar að þetta fór ekki í neitt samráð. Þá þurfum við að tryggja það eftir bestu getu í nefndinni að jafnvel á þessum stutta tíma sem við höfum fáum við gesti sem koma og skýra út fyrir okkur hvort þetta geri það sem þarf að gera. Ég veit að það er metnaður innan atvinnuveganefndar fyrir því að gera slíkt.