Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Vinnubrögð innan þingsins eru skelfileg. Við þau sem eru ekki hér að vinna við þetta dagsdaglega segi ég að ég held að í flestum fyrirtækjum væri búið að reka okkur öll vegna þess að við værum ekki að vinna vinnuna okkar. Af hverju erum við ekki að vinna vinnuna okkar? Af því að málin koma hreinlega ekki inn. Ég væri búinn að reka þessa ríkisstjórn, það er alveg á hreinu. En við, sem hér erum, erum hins vegar þannig gerð að við látum ekki slugsaskapinn í ríkisstjórninni stoppa okkur í því að styðja fólk og fyrirtæki í Grindavík. Þess vegna munum við leggja allan þann tíma sem við þurfum í að klára þetta mál mjög vel. Ef það þýðir miðnæturfundi í nefndum, ef það þýðir að vera um helgi á nefndarfundum til að taka á móti fólki, þá stendur ekki á mér. Ég veit að ekki stendur á öðrum þingmönnum í nefndinni til að gera það sem þarf. Þá getum við hent út öðrum málum, sem er enn verið að rífast um innan stjórnarheimilisins hvort eð er, eins og lagareldi.