154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[19:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er ekki í nefndinni sem þetta mál gengur til en kem oft að málum sem varða fjárheimildir á einhvern hátt. Það er gaman að segja frá því að greiningin hérna um áhrif á ríkissjóð, eins ónákvæm og hún er, er samt með þeim betri sem ég hef séð í frumvörpum ríkisstjórnarinnar til þessa, merkilegt nokk. Þarna er talað um 400 milljónir að teknu tilliti til eigin áhættu ríkisaðila. Kostnaðargreiningin er þarna á ákveðnu bili í nokkrum sundurliðuðum punktum upp á um 600 millj. kr. í heildina, en það er ef slæmt tjón verður og á þessu tímabili til og með 31. desember 2024, til loka árs frá gildistöku laganna. Þetta á að treysta, ekki tryggja — við skulum gera greinarmun á þeim orðum — áframhaldandi starfsemi í Grindavíkurbæ fram að áramótum en mér líður eins og verið sé að segja í rauninni að það eigi að tryggja áframhaldandi starfsemi í Grindavíkurbæ miðað við að hér er verið að setja upp þennan sjóð, afurðasjóð, sem greiðir fyrir tjón. Það eru tryggingar. Þetta er smámunur sem mér finnst vera áhugaverður í þessu.

Ég veit að þetta er kannski pínu lagatæknilegt og þess háttar en skiptir samt máli í því samhengi að annars vegar nær gildissviðið skv. 1. gr., dálítið mikilvæg grein, til í raun allra á Íslandi sem uppfylla skilyrði um að vera einstaklingar eða lögaðilar sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og verða fyrir tjóni. Aðili sem verður fyrir tjóni skv. 6. gr. frá og með gildistöku laganna og til loka ársins fellur því undir gildissvið laganna. 6. gr. listar þó upp hvaða skilyrði það eru sem þarf til þess að fá greiðslur úr sjóðnum og sjóðurinn tekur einungis tillit til aðila sem eru innan þéttbýlismarka Grindavíkur. Þannig að þrátt fyrir að aðilar annars staðar á landinu verði fyrir aurskriðu, snjóflóði og ég veit ekki hvað, sem myndi uppfylla skilyrði 6. gr. fyrir utan það að vera á þéttbýlissvæði Grindavíkur og falla undir skilyrðin skv. 1. gr., undir gildissvið laganna, getur sjóðurinn ekki tekið tillit til þeirra af því að hann hefur afmarkað starfssvið sem slíkur. Mér finnst þetta pínu skrýtið. Mér fyndist eðlilegt að færa það afmarkaða gildissvið laganna sem er í 6. gr., sem sagt sjóðsins, inn í 1. gr. til að segja: Þetta gildir um þá sem eru einstaklingar eða lögaðilar sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur innan þéttbýlismarka Grindavíkur; hafa það bara í 1. gr. og þá er það alveg skýrt.

Hitt er varðandi það að tryggja atvinnustarfsemi, af því að þarna er verið að setja upp sjóð sem bætir skaða, bætir fólki eða aðilum sem falla undir 1. gr. þann skaða sem þau verða fyrir vegna náttúruhamfara. Ég lít á það sem tryggingar svona lagatæknilega séð. Ég er búinn að vesenast dálítið í lögum um ríkisábyrgð, sem er ákveðin trygging líka, og finnst mér þetta vera ákveðin ríkisábyrgð á rekstri fyrirtækja innan þéttbýlismarka Grindavíkur, sem samkvæmt markmiðum laganna á að treysta áframhaldandi starfsemi í með því að tryggja þau fyrir tjóni þegar allt kemur til alls. Maður sér þegar maður skoðar lögin að þetta frumvarp er dálítið byggt á og er svipað lögunum um Bjargráðasjóð. Nokkur atriði eru öðruvísi. Lögin um Bjargráðasjóð eru pínulítið viðameiri, sérstaklega hvað varðar tekjur sjóðsins og skilyrði sjóðsins til að fjárfesta í tekjum sem eru ekki notaðar. Hann þarf að geyma þær milli ára í fjárfestingum eða einhverju því um líku. Ég velti fyrir mér í því samhengi af hverju 6. gr. er í rauninni ekki bara bráðabirgðaákvæði við lögin um Bjargráðasjóð. Af hverju þarf að fjölga nefndum um eina í viðbót, þessa þriggja manna nefnd, þegar fólkið sem vinnur í Bjargráðasjóði er væntanlega vel hæft til að sinna nákvæmlega sama starfi? Þarna fjölgar um þrjá í nefnd sem tekur kannski aldrei til starfa af því að þessar aðstæður koma ekki upp það sem eftir er þessa árs, hver veit. Og ef það á að treysta áframhaldandi starfsemi í Grindavíkurbæ, af hverju er það bara til 31. desember? Er ekki alltaf verið að biðja um fyrirsjáanleika eða eru einhver loforð þarna á bak við um að sjá hvernig þetta þróast á árinu og ef ekkert er þá verði þetta framlengt hvort eð er?

Mér finnst þetta dálítið skrýtið þegar allt kemur til alls. Undirliggjandi í þessu öllu er spurningin: Þurfum við að gera þetta? Hver er hinn möguleikinn? Miðað við ástandið í Grindavík eins og það er í dag þá reynum við að halda vörnunum til að bærinn verði vonandi byggilegur eftir að allar jarðhræringarnar eru búnar, en að tryggja einhvers konar starfsemi í bænum á meðan þær eru í gangi finnst mér vera spurning sem þarf að svara. Hvernig lítur það út? Hvernig myndi það líta út ef við myndum bara sleppa því, koma aftur að því þegar þessu tímabili er lokið og spyrja okkur þá hvernig við viljum byggja upp bæinn, viljum við byggja hann upp o.s.frv.? Fræðilega séð getum við einhvern veginn verið að viðhalda þessari starfsemi og treysta starfsemi í Grindavíkurbæ næstu 50 árin. Við höfum ekki hugmynd um það. Þetta er nákvæmlega eins og í Covid þegar við vissum ekki hvort þriðja, fjórða eða fimmta bylgjan myndi koma, eða hvað sem það var. Við vorum alltaf að grípa inn í með einhver tímabundin úrræði. Ríkisstjórnin var alltaf að vona að nú væri síðasta bylgjan — nú er síðasta gosið eða nú er jarðhræringum hætt. Ég myndi vilja sjá þá sviðsmynd uppsetta ef við værum ekki að treysta áframhaldandi starfsemi á þessu svæði innan þéttbýlismarka Grindavíkur, hvernig myndi það líta út? Hver er kostnaðurinn við það í samanburði við þetta? Eins og ég sagði áðan, án þess að spyrja í rauninni þessara erfiðu spurninga — það dregur ekkert úr vilja fólks til að byggja upp bæinn eftir á, alls ekki — og fá svör við þeim, þá getum við í rauninni ekki fengið bestu lausnirnar á ástandinu. Vandamálið sem við erum alltaf að glíma við og glímdum við í Covid er að við gátum ekki svarað því hvort þetta úrræði þurfi því að við höfðum ekki muninn til að bera saman við. Ég hef heyrt í umræðunni áhyggjurnar um að ef við pössum ekki upp á að starfsemin sé á staðnum munu togararnir og kvótinn fara eitthvert annað og aldrei koma þangað aftur — skiljanlegur ótti. Það hefur bara gerst ansi oft síðan kvótakerfi var komið á með framsali og öllu því og ekki var hlaupið upp til handa og fóta að bjarga kvótanum í öllum sjávarplássunum sem hafa misst hann á undanförnum áratugum, en núna á að gera það. Nú er hræðsla við að kvótinn komi ekki aftur til Grindavíkur þegar jarðhræringum lýkur og ákveðið verður að fara í uppbyggingu aftur á því svæði.

Þetta er svona kjarninn í því sem mér finnst vanta í öll þessi Grindavíkurmál: Hvernig lítur staðan út ef við horfum fram á þetta ástand í tíu ár? Ef þetta klárast í sumar, hvernig lítur það út? Hvernig lítur uppbyggingaráætlunin út? Hvað myndi breytast ef þetta stæði yfir í fimm ár eða bara helmingi lengur en verið hefur? 10 ár, 50 ár, hvað þá? Við þurfum ekkert að vera nákvæm í því. Það er alltaf gagnrýnin sem ég fæ þegar ég bið um þessar vangaveltur, að það sé ekki hægt að spá fyrir um það — reynum það. Reynum að svara spurningum um svona aðstæður af því að það er eina leiðin til að nálgast þetta verkefni á einhvern heiðarlegan hátt. Það gefur fólki kannski ekki falskar vonir eða væntingar um hvernig við munum leysa úr þessum aðstæðum af því að það yrði þá fyrirsjáanlegt, búið væri að spyrja þessara spurninga og svara þeim: Hvað ef þetta gerist, en hitt? Auðvitað vonumst við til að besta niðurstaða náist en þá væri alla vega búið að svara því fyrir fram ef ýmsar mögulegar aðstæður koma upp.

Við höfum dæmi um það frá fyrri gosum á þessu svæði á tímabilinu þar sem ein sviðsmyndin var að það yrði heitavatnslaust á svæðinu. Það var alveg skýrt sett fram hvað þyrfti að gera til þess að lágmarka þann skaða eða koma í veg fyrir hann. Það þurfti að koma upp katli við Reykjanesbæ en það kostaði einhverjar 600 milljónir, milljarð eða því um líkt. Það hefði þurft að gera það með þriggja eða sex mánaða fyrirvara en það var ekki gert því að það var einhvern veginn of kostnaðarsamt. Þegar sú sviðsmynd raungerðist, þrátt fyrir greininguna um hversu líklegt það væri í raun, varð heitavatnslaust og hefði það getað valdið gríðarlegum skemmdum á húsnæði á öllu Reykjanesinu, á Suðurnesjunum og þarna úti um allt. Blessunarlega var þessi nýsköpun til: Prófum að leggja þetta beint yfir nýrunnið hraun — sem virkaði. Enginn sá fyrir að það væri einhver möguleg lausn, ekki séns, en það reddaði því að það tæki ekki tvær vikur í viðbót eða eitthvað svoleiðis að koma heitu vatni aftur á og bjargaði vonandi helling af verðmætum. Þetta hefði verið hægt að koma í veg fyrir með því að hafa varaorkustöð til hitunar í staðinn. Það hefði alveg nýst og hefði borgað sig, af því að það þarf svona hringtengingu á svæðinu til að tryggja slíkt öryggi. Það hefði verið góð viðbót við öryggiskerfið á svæðinu hvað hita varðar sem hefði dugað fram að því að hægt væri að koma upp varanlegri lausnum. Ég held að það hefði ekki verið slæm nýting á fjármunum, alls ekki.

Þetta er bakgrunnur þeirra mála sem við erum að vinna með núna. Það er ákveðin skammsýni sem við erum alltaf að glíma við í öllum þessum verkefnum þar sem óvissan er mikil. Við reynum ekki að svara stóru og erfiðu spurningunum. Við leiðum ekki hugann að þeim og vonumst til að þetta gerist aldrei og þá fáum við yfirleitt ekki svo góðar lausnir, en þetta er líklega það besta sem við getum dregið upp úr hattinum núna.