154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[19:31]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér Grindavíkurmál eins og við höfum gert í allan dag og ekki vanþörf á að mínu mati miðað við þær aðstæður sem uppi eru þar, ég tala nú ekki um eftir síðasta gos sem stendur enn og er kannski það stærsta, umfangsmesta og hættulegasta sem hingað til hefur riðið yfir. Ríkisstjórnin er núna á síðustu metrum þingsins að leggja fram fullt af málum og við vitum að það bíða okkar mjög umdeild mál sem ættu að hafa verið á dagskrá í dag og í gær en hafa ekki komist á dagskrá, einmitt vegna þess að við teljum að skýra þurfi þessa mynd sem snýr að Grindavík.

Hv. þingmaður vill alltaf horfa á stóru myndina en mig langar samt að horfa aðeins á 6. gr. Ég spurði hæstv. ráðherra að því í dag fyrir hverja þetta væri, hverjir hefðu beðið um þetta úrræði, af því að ég get ekki betur séð en að úrræðið sé kannski fyrir stærstu og stöndugustu fyrirtækin í Grindavík sem eru í einhvers konar rekstri, rekstri sem þau geta í raun og veru farið með hvert sem er. Auðvitað eiga þau mörg vinnslulínur þarna en við sáum bara viðbrögð Vísis sem fór til Helguvíkur með hluta framleiðslunnar. Ráðherra sagði hér í pontu að þetta gilti líka um litlu fyrirtækin. Ef maður les 1. mgr. 6. gr., með leyfi forseta:

„Hlutverk Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar er að veita rekstraraðilum sem falla undir gildissvið laga þessara fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar óbeint tjón á matvælum og fóðri í eigu rekstraraðila …“ (Forseti hringir.) — þá spyr maður: Hverjir eru í matvælaframleiðslu og fóðurframleiðslu í Grindavík aðrir en þessir aðilar sem eru þarna niðri við höfn?

(Forseti (ÁsF): Ég minni ræðumann á að hann hefur tvær mínútur í andsvari.)