154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[19:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er kannski lykilatriði sem hv. þingmaður bendir á í orðunum „meiri háttar óbeint tjón“. Ég veit ekki hversu mikið gildismat er í túlkun á orðunum „meiri háttar“, er það t.d. í samhengi við stærð fyrirtækis? Lítið tjón hjá litlu fyrirtæki í krónum talið er meiri háttar tjón fyrir það fyrirtæki. Eða er verið að tala um meiri háttar tjón í krónum, þ.e. að tjónið verði að hlaupa á einhverjum milljörðum til að það sé þess vert að falla undir þessi ákvæði? Þetta er eitthvað sem nefndin ætti að spyrja nánar um. Í þeim útskýringum sem lesa má í greinargerðinni er þetta kannski ekki alveg augljóst. Verið er að tala um hráefni og afurðir á færiböndum. Þar er talað um ansi stórar tölur, 50–70 milljónir. Fiskur í pækli, 40–70 milljónir og afurðir í frystigeymslu, 50–100 milljónir. Þetta er væntanlega það sem er verið að meina með meiri háttar tjóni, en ef ein lítil frystikista, jafnvel stór, í einhverju matvælafyrirtæki skemmist þá gæti það alveg verið meiri háttar tjón fyrir það fyrirtæki þó að það væri ekki nema upp á 5 milljónir eða þaðan af minna. Nefndin ætti kannski að kíkja aðeins á það orðalag, athuga hver ætlunin er í raun og veru þarna á bak við og tryggja að þetta nái líka til smærri fyrirtækja.