Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Virðulegur forseti. Það er akkúrat þetta. Í greinargerðinni eru nefnd dæmi um hvað skuli bætt og um hvaða upphæðir geti verið að tefla. Mig langar að nefna lítið fyrirtæki, Hjá Höllu, sem flutti starfsemi sína út í Suðurnesjabæ. Halla eygði möguleika á að halda áfram þar af því að hún var með samninga uppi í flugstöð. Þá þurfti hún bara að færa sig í annað eldhús til að geta haldið áfram. Það fyrirtæki þurfti að tæma lagerinn sinn ítrekað og henda honum. Það kostaði ekki 40 milljónir en engu að síður, eins og hv. þingmaður bendir á, var um verulegt tjón að ræða fyrir þann rekstraraðila. Væntanlega er ekki verið að bakfæra eða bæta tjón aftur í tímann, en allir þessir litlu rekstraraðilar eru annaðhvort hættir starfsemi eða farnir. (Forseti hringir.) Ég sé ekki annað en að þetta nái bara utan um þessa aðila sem við vorum að ræða hér.