154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[19:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, það er nefnilega lagatúlkunin sem skiptir máli þegar allt kemur til alls. Þegar notuð eru orð eins og „meiri háttar tjón“, þá skiptir máli að við, löggjafinn, sendum skýr skilaboð um hvernig það skuli túlkað. Það er mjög auðvelt fyrir framkvæmdarvaldið að segja bara: Ó, meiri háttar tjón; samkvæmt greinargerð er talað um tjón upp á tugi milljóna þannig að tjón upp á 250.000 fyrir einhvern veitingastað eða því um líkt telur ekki í þessu og verður að redda því einhvern veginn öðruvísi. Kannski fellur það undir tryggingatjónið, kannski yrði það útskýrt á þann hátt en það er þá eitthvað sem nefndin verður að skýra betur. Ég veit ekki hvort nefndarálit dugi. Ég held að það væri í rauninni ekki nægilega gott lögskýringargagn til þess að leiðrétta þetta, þannig að kannski væri betra að tala um eitthvað annað en meiri háttar tjón og útskýra það betur í lagagreininni sjálfri.