154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[19:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir greinargóða yfirferð hans yfir þetta mál. Mér fannst rétt eins og hv. þm. Viðreisnar, Guðbrandi Einarssyni, mjög áhugavert það sem hann sagði um 6. gr. og vildi kannski elta umfjöllun hans þar. Eitt er stóra myndin en síðan er það auðvitað þannig að við stöndum hér í kvöld og erum að ræða mál sem á væntanlega að verða að lögum á allra næstu dögum og er að manni sýnist töluvert óljóst til nákvæmlega hverra frumvarpið tekur. Annað er að ræða markmið og ég gef mér að þingheimur sé algjörlega einhuga í því góða og mikilvæga markmiði að ná utan um þessa hagsmuni atvinnulífsins. Ég vil nefna að mér hefur fundist ríkisstjórnin vera fullsvifasein í því sambandi en á sama tíma er ofboðslega vont að afgreiða hér lög í júnímánuði þegar við vitum síðan að engin frekari lagasetning mun eiga sér stað fyrr en í haust og vera með það í dálítilli óvissu hvað þetta frumvarp þýðir nákvæmlega. Það er auðvitað grunnpunkturinn í þessu og fyrsti punktur í samtalinu: Til hverra tekur þetta frumvarp? Ég veit að atvinnuveganefnd sem fær þetta mál, þennan bolta, mun leggja sig alla fram um að skýra það nánar en ég hefði áhuga á að heyra í þingmanni frekar um þessi sjónarmið hans um 6. gr.