154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[19:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er kannski samhengið við 2. gr. sem skiptir þarna máli, markmiðið sem slíkt. Ég náði ekki að fara yfir þetta í ræðunni minni en krotaði sérstaklega utan um 2. gr. í greinargerðinni þar sem segir að markmiðið með frumvarpinu sé „… að treysta áframhaldandi starfsemi í Grindavíkurbæ með því að veita rekstraraðilum sem verða fyrir óbeinu tjóni á matvælum og fóðri af völdum náttúruhamfara kost á að sækja um fjárhagslegan stuðning. Með stuðningsúrræði samkvæmt frumvarpinu færist þannig áhættan af óbeinu tjóni af völdum náttúruhamfara frá rekstraraðilum til ríkissjóðs.“ Þetta er svolítið það sem ég er að tala um í tengslum við ríkisábyrgðarhlutann. Hitt er, eins og hv. þingmaður bendir á, að treysta áframhaldandi starfsemi. Þá getur maður spurt: Hverra? Það hlýtur að vera eitthvað sem þarf að vera hægt að svara. Ráðherra var spurð um þetta eftir framsöguræðu sína. Það var ekki mikið um svör og sagt var að það væri einhvern veginn flókið að segja til um það, en við vitum alveg hvaða fyrirtæki eru í bænum og eru kannski eftir þar. Ef við vitum það ekki erum við að gera eitthvað stórkostlega rangt í öllum viðbrögðum við þessum aðstæðum, ef það er ekki til greinargott yfirlit um það hverjum er verið að fylgjast með. Það hlýtur því að vera hægt að svara spurningunni: Áframhaldandi starfsemi hverra á að treysta í Grindavíkurbæ?