154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[19:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í kvöld og við höfum rætt um það, þau okkar sem eru hér í salnum, að við höfum öll heyrt ákall fyrirtækja og rekstraraðila. Maður hefur áhyggjur af því hvort frumvarpið nái fram markmiðum sínum um að grípa þá hópa sem sannarlega þurfa á því að halda og hver tímalínan er í þessu samhengi, hvort þessir allra síðustu dagar muni duga til. Þegar ég skoða þetta frumvarp þá sér maður hvert markmiðið er, talað er um tjón sem fellur ekki undir tryggingavernd en mér finnst vanta upp á að það sé skilgreint til hlítar um hvaða hópa er verið að tala. Vitaskuld verður krafan aldrei sú að það sé einhver tæmandi talning, en skilgreiningin verður að vera að það sé t.d. ekki verið að skapa væntingar um eitthvað sem ekkert er.