Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Forseti. Það er alveg rétt að þetta er ákveðinn grautur, hvaða hugtök eru notuð. Þess vegna fæ ég á tilfinninguna að ríkisábyrgð liggi einhvers staðar þarna á bak við en það sé verið að fela hana með því að það sé þarna einhver sjóður sem er fyrir framan sem hefur tekjur frá ríkissjóði eftir að eitthvert tjón verður, fram að því ekki neitt en samt á að vera einhver þriggja manna stjórn sem þarf að greiða fyrir á einhvern ákveðinn hátt væntanlega líka, nema kannski það sé ekki greitt, nema þau mæti á fundi til að ákveða hvort um tjón sé að ræða eða ekki. Og svo styrkveitingar annars vegar og að treysta starfsemi og tryggja — þetta er áhugavert verð ég að segja.
Ég velti fyrir mér hvort þetta sé úrræði sem við myndum alla jafna hafa varanlegt óháð því hvar á landinu svona atburðir gerast. Er þetta eitthvað sem við myndum setja í lög um Bjargráðasjóð t.d. eða eitthvað því um líkt, útvíkka sjóðinn hvað það varðar? Eða er þetta svona tækifærisfrumvarp fyrir þessar sérstöku aðstæður akkúrat núna en síðan næst þegar náttúruhamfarir gerast einhvers staðar annars staðar þá má það einhvern veginn ekki gefa fordæmi fyrir því að sömu tryggingar verði til staðar þá og eru veittar í þessum lögum? Þá veltir maður fyrir sér: Hvað er sérstakt í rauninni við þetta svæði umfram önnur svæði með tilliti til náttúruhamfara og þessara matvæla sem er verið að tryggja fyrir skemmdum fyrir fyrirtækin? Þetta er mjög áhugavert frumvarp.