Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Virðulegur forseti. Við erum búin að ræða málefni Grindavíkur bæði í gær og í dag og mér sýnist að þessi umræða sé nú komin nálægt lokum. En mig langaði aðeins að fá að taka til máls undir þessu máli sem er frumvarp til laga um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar, sem ég veit nú ekki hvort er réttnefni, að þetta sé Afurðasjóður Grindavíkurbæjar sem ég held að hann sé nú ekki. En engu að síður eru þessi tvö mál sem við erum búin að vera að ræða af sama meiði, enda er vitnað í sitthvort málið í sitthvorri greinargerðinni. Í málinu sem við vorum að ræða í dag var verið að kynna aðrar tillögur sem væri verið að fara í, svo sem eins og stuðningslán sem væru þá með ríkisábyrgð til rekstraraðila í Grindavík. Maður áttar sig ekki alveg á því alla vega á þessum tímapunkti hverjir ættu rétt á því að fá slík stuðningslán með ríkisábyrgðinni.
Síðan er það þetta mál með þennan afurðasjóð og þar er í greinargerðinni m.a. minnst á það sem við vorum að ræða í dag, framlengingu á stuðningsúrræðum sem hafa verið við lýði núna í dágóðan tíma með bæði húsnæðisstuðningi, launastuðningi og rekstrarstuðningi fyrirtækja. Þetta er þá viðbót við það sem hefur verið gert og það segir í greinargerð, með leyfi forseta:
„Forsætisráðherra skipaði starfshóp um atvinnulífið í Grindavík hinn 19. febrúar 2024. Í hópnum sátu fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, matvælaráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneytis. Verkefni hópsins var að kortleggja atvinnulíf, aðgengi að Grindavík og þá valkosti sem í boði eru varðandi áframhaldandi rekstur fyrirtækja í Grindavík. Hópnum var gert að vinna upplýsingar fyrir ráðherranefnd um samræmingu mála og í framhaldinu tillögur fyrir ríkisstjórn.“
Það er ekki eins og þessi hópur hafi fundið einhverjar tillögur heldur var samið við ráðgjafarfyrirtækið Deloitte um að setja eitthvað niður á blað og ég sé ekki annað en að niðurstaðan út úr þessu séu þessar tvær tillögur, annars vegar stuðningslánin og svo þessi afurðasjóður. Maður veltir fyrir sér: Fyrir hvað vorum við að borga þessum ráðgjöfum? Það er ekki mikill afrakstur af vinnu ráðgjafanna ef þetta eru bara tillögurnar sem áttu að koma út úr þessu.
Það segir líka í greinargerðinni:
„Væntingar margra sem telja að flytja þurfi starfsemi fyrirtækja sinna frá Grindavík eða sjá ekki fram á rekstrargrundvöll á næstu árum voru að ríkið byðist til að kaupa atvinnuhúsnæði líkt og gert var með íbúðarhúsnæði.“
Þetta voru væntingar fyrirtækjaeigenda, alla vega smærri fyrirtækjaeigenda í Grindavík. Þessu hefur ekki verið svarað. Reyndar heyrði ég, og væntanlega fleiri sem voru á íbúafundi uppi í Grindavík fyrir einhverjum vikum síðan, formann þessarar nefndar segja við fyrirtækjaeigendur í Grindavík að menn sæju ýmis tormerki á því að kaupa upp húsnæði fyrirtækja í Grindavík — sæju ýmis tormerki, þetta var þannig orðað. Hver þessi tormerki eru hef ég enga vitneskju um en alla vega var búið að ákveða það, annaðhvort í ríkisstjórninni eða í þessum stýrihópi, að það yrði ekki gert en kynnt með þeim hætti að menn sæju ýmis tormerki á því að gera þetta.
Síðan er rakið hér í greinargerðinni og vitnað í ályktun Grindavíkurbæjar, dagsett 14. febrúar, þar sem segir að fyrirtæki í Grindavík séu komin að þolmörkum. Síðan segir einnig að í ályktuninni komi fram að mikilvægt sé að opna bæinn fyrir aukinni starfsemi til að viðhalda rekstri fyrirtækja með því að hefja rekstur meðan náttúra leyfir. Þetta er skrifað 14. febrúar. Það er ekki eins og það hafi alltaf verið bara í gúddí eða í góðum málum síðan þá. Við erum búin að vera upplifa gos síðan þá og hættan í Grindavík er miklu miklu meiri. Vilji íbúa til að flytja hefur aukist og vilji fyrirtækja til að fara hefur líka aukist af því að það er enginn til að þjóna uppi í Grindavík. Þannig að ef það er verið að vinna þetta miðað við þetta — í þessari ályktun sem er verið að tala um þarna var bara ýmislegt annað. Grindavík var að leggja fram óskir margra sem höfðu komið fram, m.a. um niðurfellingu á stimpilgjöldum. Grindvíkingar eru meðhöndlaðir eins og fyrstu kaupendur; þau gætu nýtt séreignarsjóðinn sinn eins og fyrstu kaupendur, hafi þau ekki skilið hann eftir og eytt honum í Grindavík. Síðan var verið að horfa á greiðslumatið. Það var eitt og annað þarna sem kom fram í þessari ályktun Grindavíkurbæjar sem ég get ekki séð að rammi inn hugmyndir þessarar ráðgjafarnefndar eða Deloitte um stuðningslán með ríkisábyrgð eða að búa til þennan afurðasjóð. Það voru önnur brýnni mál sem lágu á fólki í Grindavík. Við erum líka síðan búin að upplifa það að sveitarfélagið sjálft er búið að átta sig á því að það verður ekki um neina starfsemi að ræða uppi í Grindavík á næstu vikum og mánuðum, enda er búið að afleggja skólahald þar a.m.k. í heilt ár. Sveitarfélagið er núna búið að segja upp 150 manns. Það er búið að átta sig á því að það verður ekki um neina starfsemi að ræða í Grindavík í bili a.m.k.
Þá veltir maður fyrir sér í þessari stöðu: Hver ættu hin raunverulegu úrræði að vera fyrir þá sem hafa orðið að yfirgefa Grindavík? Bæði fyrir þá sem hafa þurft að yfirgefa húsnæði sitt, og margir þeirra hafa ekki fengið það bætt, og fyrir þá sem hafa þurft að yfirgefa fyrirtæki sín og fá það ekki bætt? Þeim er haldið svona hálfdauðum í hengingarólinni með því að framlengja þessa styrki sem nýtast ekki mörgum. Ég er því ekki alveg búinn að ná utan um það hvers vegna þetta frumvarp er komið fram og ég spyr aftur og hef spurt: Fyrir hverja er þetta? Við vitum um stóru fyrirtækin, Þorbjörn og Vísi. Þau eru reyndar komin í vanda líka; Þorbjörn er búinn að segja upp fólki. En hvar er pakkinn fyrir litlu fyrirtækin sem þurftu að loka? Hér er búið að nefna Hjá Höllu. Ég hef nefnt verslunina Palóma. Við erum búnir að nefna Hérastubb bakara. Það eru vélsmiðjur þarna. Það eru veitingastaðir. Þessir aðilar hafa ekki fengið neina úrlausn og maður spyr um úrræðin fyrir þessa hópa. Þau bara vantar.
Ég næ bara ekki, virðulegur forseti, alveg utan um það á hvaða vegferð við erum núna þegar við vitum að það er fjöldi einstaklinga í vanda, það er fjöldi fyrirtækja í vanda, það er fjöldi lögaðila sem áttu húsnæði í Grindavík sem hafa ekki fengið það bætt. En þá komum við með einhverjar reglur um einhvern afurðasjóð. Þannig að ég átta mig ekki á því á hvaða vegferð við erum akkúrat núna.
Ég held að ég hafi ekkert meira um þetta mál að segja. Við ætlum að taka gestamóttökur í efnahags- og viðskiptanefnd núna út af hinu fyrra máli sem við ræddum hér í dag og vonandi fáum við þá að heyra frá þessum aðilum sem koma fyrir nefndina hvort það sé eitthvert sérstakt keppikefli að stofna einhvern afurðasjóð uppi í Grindavík.