154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[20:05]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að mæla gegn aðgerðum í Grindavík en mér finnst þetta vera röng forgangsröðun. Stóru fyrirtækin sem eru í starfsemi í Grindavík hafa flest tryggt sig á einhvern hátt. Þau hafa flest tryggingar vegna vinnslustöðvarinnar. Ef einhver stöðvun verður á starfsemi þá er til trygging. Mörg þeirra hafa komið sér upp vararafstöðvum til að geta brugðist við þegar rafmagnið fer.

Mér er ekki kunnugt um eitthvert stórkostlegt tjón á lagerum hjá stóru fyrirtækjunum í Grindavík. Ef maður skoðar þetta mál er verið að tala um meiri háttar óbeint tjón á matvælum og fóðri. Hverjir eru í slíkri framleiðslu? Það eru ekki litlu veitingahúsin sem höfðu starfsemi í Grindavík, eða litlu vélsmiðjurnar, eða litlu gistihúsin. Þau hafa ekki orðið fyrir tjóni sem þessi Afurðasjóður bætir. En þau eru búin að bíða svo að mánuðum skiptir eftir úrlausn og hún hefur ekki fengist. Það er það sem ég geri athugasemd við.

Við erum ekki að horfa á það sem skiptir okkur mestu máli núna. Þessi fyrirtæki eru í rekstri og þeim gengur ágætlega. Þau hafa getað haldið starfsemi gangandi. Þau hafa skip sem koma að landi og þau hafa afurðir sem þau geta farið að vinna. En við höfum líka fullt af fyrirtækjum sem eru ekki að vinna neinar afurðir af því að þau geta ekki verið þarna. Það eru engir íbúar til að þjóna. Þetta eru þjónustufyrirtæki mörg hver. Þegar engir íbúar eru geta þau ekki þjónað neinum. Þá spyr maður: Hvaða möguleika eiga slík fyrirtæki og af hverju erum við ekki að vinna frekar fyrir þau á þessum tímapunkti? (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að hallmæla því að við ætlum að gera eitthvað meira en mér finnst að við verðum að taka þetta í réttri röð.