Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Það er matskennt ef við tölum um stórkostlegt eða stórt og mikið tjón. Þá er eins og liggi í orðunum að eitthvað þurfi að vera stórkostlegt. Á mælikvarða hvers? Lítil og meðalstór fyrirtæki ættu auðvitað 100% að falla undir þennan Afurðasjóð og fá þann stuðning sem ríkið kemur með. Jafnvel sá allra smæsti getur orðið fyrir stórkostlegu tjóni á sinn mælikvarða.
Í Grindavík eru einstaklingar sem ætla aldrei að gefast upp. Einstaklingar hafa þrívegis komið sér upp nýjum lager í veitingahúsinu sínu og þrívegis hefur allur lagerinn skemmst og orðið ónýtur. Það er algjör ómöguleiki fyrir fólk að tryggja, bæta eða bjarga verðmætum sínum þegar þeir þurfa að flýja staðinn á nokkrum mínútum, jafnvel á sokkaleistunum. Ég velti fyrir mér hvort ekki eigi eftir að vinna þetta mál þannig að þegar talað er um stórkostlegt tjón hljótum við líka að eiga við tjón einstaklings þó að hann sé ekki með stórkostlega umfangsmikinn rekstur. Á hans mælikvarða er það stórt. Auðvitað á enginn að detta milli skips og bryggju.
Við erum að tala um náttúruhamfarir. Við erum að tala um það að verið er að rýma heilt sveitarfélag. Það eru sjö mánuðir núna 10. júní síðan þessar hörmungar hófust í Grindavík í nóvember á síðasta ári. Ég velti því aftur fyrir mér, sem ég nefndi áðan, hvað hv. þingmanni finnst um viðbrögð þessarar ríkisstjórnar og þær sviðsmyndir sem engar voru þrátt fyrir að það hefði verið vitað hvað koma skyldi.