154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.

1131. mál
[20:10]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar andsvar. Við erum samstiga í þessu, okkur finnst ekki nóg að gert. Mér fannst ég geta lesið það í fjölmiðlum áðan að það væri enn þá að renna kvika inn í þetta hólf þannig að við megum eiga von á því að þegar þessum atburði lýkur þá fari annar atburður af stað, hvort sem það verður eftir mánuð eða tvo. Þetta er ekki búið. Væntingar Grindvíkinga dvína frá degi til dags, margir einstaklingar sem ætluðu sér að þráast við og ekki fara, hafa núna leitað til Þórkötlu og óskað eftir uppkaupum. Þannig er bara þessi kaldranalegi veruleiki sem birtist okkur þarna uppi í Grindavík. Hvernig ætlum við sem samfélag að vinna með það? Hvernig ætlum við að taka á því fyrir hönd þessara einstaklinga sem hafa staðið með okkur sem þjóð, verið hluti af þjóðinni en eru núna í þeim vanda sem þau ráða ekki við sjálf? Þá verður eitthvað annað að koma til. Ég hef af veikum mætti reynt að tala máli Grindvíkinga hér í þessum ræðustól frá því að þessir atburðir hófust og mun halda því áfram og ég fagna því að við skulum hafa eytt þessum tveimur dögum í að ræða stöðuna í Grindavík. Það skiptir máli. Það er bara ekkert nóg að maður sé að fara hér í ræðu í tvær mínútur öðru hverju um málefni Grindavíkur. Við höfum ekki tekið slíka umræðu um málefni Grindavíkur eins og við erum búin að gera núna síðastliðna tvo daga. Við þurfum bara að halda því áfram af því að við erum ekki búin að leysa þessi mál sem þarf að leysa. Við ætlum að tala við Grindvíkinga núna í efnahags- og viðskiptanefnd núna næstu daga en allt í einhverri fljótfærni af því að það þarf að klára allt á tveimur vikum eða eitthvað. Þá fá umsagnaraðilar bara tvo eða þrjá daga til að veita umsögn um þessi mál sem við erum búin að vera að ræða í dag. En við ætlum að eiga samtal við þá og vonandi koma þeir með tillögur og við munum þá hlusta (Forseti hringir.) og leggja eitthvað til í framhaldinu. En það hefur bara ekki verið gert. Það hefur ekki verið hlustað á þau.