breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Varðandi aðhaldskröfur sem hann minnist hér á þá er það nú bara þannig í fjárlögum hvers árs að gerð aðhaldskrafa á nánast alla sem eru á fjárlögum. Landspítalinn hefur verið undanþeginn núna, ef ég man rétt, og eitthvað í heilbrigðiskerfinu, lögreglan, ég man ekki alveg allar þær stofnanir sem hafa verið undanþegnar aðhaldskröfu. Ég held reyndar að það sé í sjálfu sér bara eðlilegt að allar stofnanir, hvort sem þær fá nóg af peningum eða ekki nóg, hafi ákveðið aðhald í sínum störfum. Ég held að við getum verið sammála um það. Ég held að umfang starfseminnar og umfang þeirra leyfisveitinga og óska og þess sem er farið fram á — gjaldið á að vera í samræmi við það. Það er svolítið síðan þetta mál var í nefndinni en ég man að þær stofnanir og þau fyrirtæki sem komu, m.a. þeir aðilar sem hv. þingmaður nefndi hérna áðan, töldu mjög eðlilegt að gjaldið yrði hækkað einmitt til að koma til móts við það að greiða fyrir þá þjónustu sem um ræddi og til að flýta henni líka. Það kom alveg skýrt fram að þeir töldu að ef það vantaði mannskap til að flýta ferlinu og það stæðist alla vega þau lög sem um það fjalla þá væri ekki neitt tiltökumál í sjálfri sér að hækka gjaldið sem því nemur.
Varðandi aðrar stofnanir sem leita umsagna þá er ég auðvitað ekki sérstakur talsmaður mikilla gjalda en auðvitað þurfa allar þær stofnanir líka að lifa og svona „på stående fod“, afsakið, forseti, að ég skyldi nota dönskuslettu hérna, þá finnst mér bara eðlilegt að það þurfi að skoða mjög nákvæmlega hvort slíkt þurfi að gerast og veita öðrum stofnunum það.