breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.
Forseti. Þegar hv. þingmaður segir að það sé bara þannig að það sé gerð aðhaldskrafa á hverju ári á flestar stofnanir þá er það bara pólitísk ákvörðun að það sé þannig. Það er ákvörðun þeirra flokka sem standa að baki fjárlagafrumvarpi hvers árs. Ég held að það fari að nálgast það að við þurfum að gera einhvers konar úttekt á því hvar þessi aðhaldskrafa lendir vegna þess að þegar einhverri stofnun er sagt að draga saman reksturinn um 4%, segjum Orkustofnun sem er með 30 stöðugildi, ef ég man rétt, og mestallur útlagður kostnaður er laun, hvar á þá að finna þessi 4%? Á að reka 1,2 starfsmenn í stofnun þar sem er einn starfsmaður með hvern málaflokk? Á að loka einhverjum málaflokki? Nei, þessi stofnun hefur lögbundin verkefni sem er ekki hægt að skera endalaust niður. Það er ekki hægt að skera þau endalaust við nögl. Ég held að við þurfum líka að finna leiðir, við þurfum að útfæra betur hvernig við tryggjum að þær stofnanir sem hafa (Forseti hringir.) skilgreint hlutverk til umsagna gagnvart Orkustofnun hafi örugglega bolmagn til að sinna því. Ég nefni t.d. Hafrannsóknastofnun sem stendur núna frammi fyrir (Forseti hringir.) gríðarstóru verkefni, að finna út úr því hvort það sé öruggt að moka upp hálfum Landeyjasandi og senda hann úr landi í gegnum Þorlákshöfn til steypuframleiðslu. (Forseti hringir.) Hvaða áhrif hefur það á fiskstofnana í kringum Ísland? Hafró veit það ekki og hefur ekki bolmagn til að vita það.
(Forseti (LínS): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)