24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

142. mál, landsreikningurinn 1908-1909

Pétur Jónsson:

Mér heyrðist á ræðu hins háttv. þm. Dal. (B. J.), að honum kæmi á óvart athugasemd hins háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) við reikningslagafrv. En það er engin ástæða til að undrast slíkt; það er hlutverk nefndarinnar, að gera athugasemdir við það, sem henni finnst athugavert. Mér skildist á háttv. þm. Barð. (B. J.), og hið sama heyrðist mér koma fram í ræðu hins háttv. þm. Dal. (B. J.), að þegar efri deild á síðasta þingi færði niður fjárveitingu þá, sem hér er um að ræða þá hafi hún ætlast til, að ekki væri nema einn viðskiftaráðunautur. Mér þætti gott, ef þeir háttv. þm. vildu benda mér á þann stað í þingtíðindunum, þar sem þetta er tekið fram, eða skýra bending er að finna í þessa átt. Eg hefi því miður ekki getað fundið slíkt og eg hygg, að þetta sé ekki rétt og það er að minsta kosti fullkomlega rangt, að það hafi verið á almennings vitorði, að efri deild hafi haft þetta fyrir augum, er hún færði fjárveitinguna niður. En hafi þetta verið tilgangur deildarinnar, þá hlýtur það að hafa komið fram annaðhvort við umræðurnar um málið eða í nefndaráliti. En eg get ekki fundið það.