21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

143. mál, tillögur yfirskoðunarmanna landsreikninganna 1908 og 1909

Framsögum. (Ólafur Briem):

Nefndin getur ekki orðið við þeim tilmælum hæstv. ráðherra, að taka aftur 4. lið um að í frumv. til fjáraukalaga séu teknar allar umframgreiðslur í landsreikningnum, er nokkru nema. Hann er framkominn vegna þess, að nefndin leit svo á, að þetta ákvæði væri til hægðarauka fyrir bæði þing og stjórn. Hún hefir oft rekið sig á óþægindi og ágreining, vegna þess að slíkt ákvæði hefir vantað, en ef þessi regla, sem hér er farið fram á, yrði tekin upp, þá hyrfi allur ágreiningur milli stjórnarinnar og yfirskoðunarmanna um það, hvort aukafjárveiting sé nauðsynleg í hverju einstöku tilfelli. Þar sem hæstv. ráðherra (Kr. J.) tók það fram, að þegar útgjöldin færu fram yfir þá lögákveðnu fjárupphæð, væri það föst regla, að taka upphæðina inn í fjáraukalögin, þá er það rétt, að svo er oft, en þó er reglan ekki ófrávíkjanleg. T. d. vil eg taka 2. b. lið í skrá yfir umframgreiðslur, sem yfirskoðunarmenn halda fram að aukafjárveitingu þurfi fyrir, en ekki hafa verið teknar upp í fjáraukalagafrumvarpið (sbr. þgskj. 639). Þar er Þorsteini Guðmundssyni yfirfiskimatsmanni borgað í ferðakostnað til Norðurlands árið 1908 105 kr. fram yfir þá upphæð, sem veitt var í fjárlögum (500 kr.), og ekki leitað aukafjárveitingar fyrir því. Stjórnin hefir auðvitað álitið, að meining þingsins hafi verið að borga ferðakostnaðinn allan, að því leyti sem hann væri ekki ósanngjarnlega reiknaður, en það getur líka hafa verið meiningin að borga að eins 500 kr., hvorki meira né minna. Ef þessi upphæð væri tekin upp á fjáraukalögin, þá hyrfi allur ágreiningur um það atriði út af fyrir sig, hvort aukafjárveiting sé nauðsynleg. Nefndin gat ekki séð, að hún gengi neitt á rétt stjórnarinnar með þessari tillögu, heldur gerði hún henni jafnvel léttara fyrir — hún þyrfti þá ekki í hverju smámáli að vega, hvort aukafjárveitingar skyldi leita eða ekki, sem oft getur verið erfitt að dæma um. Nefndin álítur því, eins og eg tók fram, að ákvæði þetta sé til hægðarauka fyrir alla hlutaðeigendur, og vill leggja til, að það verði samþykt.