16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

49. mál, dánarskýrslur

Hálfdan Guðjónsson:

Þetta frv. gekk umræðulaust til annarar umræðu, og ekki þótti einu sinni taka því að skipa nefnd til að íhuga það. Af þessu mætti ef til vill marka það, að menn væru að öllu leyti ánægðir með hversu frumv. væri úr garði gert. Við 1. umr. hafði eg búist við nefnd í málið og því ekki gert mér far um að kynna mér það rækilega. Þess vegna fór eg að kynna mér það á eftir, þótt eg máske hafi ekki gert það til hlítar.

Þetta frumv. er enginn nýr gestur á alþingi; eins og sést á athugasemdum stjórnarinnar við frumv., hefir það verið lagt fyrir þingið við og við frá 1891, en aldrei náð samþykki þingsins í lagaformi. Eg hefi ekki gefið mér ráðrúm til að kynna mér, hvað frumv. hefir verið fundið til foráttu, og þegar eg nú fer að telja upp þá agnúa, sem á því eru í mínum augum, þá getur verið, að eg taki fram ýmislegt, sem margsinnis hefir verið tiltínt áður.

Svo að eg snúi mér að frumv., eins og það liggur fyrir, þá er það fyrst og fremst að segja, að það er mjög óljóst, auk þess sem á því eru nokkrir gallar, sem nauðsynlegt er að ráða bót á. Óljóst kalla eg t. d. það orðalag í 1. gr.: ». . . . eða annan löggiltan lækni, búsettan í sókninni, ef kostur er . . . .«. Mér er óljóst, hversu langt þetta orðatiltæki »ef kostur er« á að ná. Það yrði líklega að fara eftir atvikum. Sumar sóknir eru svo víðáttumiklar, að heilan dag eða meira getur þurft til þess að vitja læknis, þótt hann kunni að vera búsettur í sókninni.

Mér er það ekki ljóst, hvort eftirlifandi aðstandendur hins dána eiga að inna þetta af hendi endurgjaldslaust. Eins og frumv. er orðað, er óljóst, hvort allur kostnaður við þetta eigi að greiðast af opinberu fé, eða þá hitt, að hlutaðeigendur eigi að greiða hann að einhverju leyti. Og eg skil ekki í því, að eg sé einn, sem er í vafa um þetta. Sé nú svo, að hlutaðeigendur eigi að taka einhvern allverulegan þátt í þessum kostnaði, þá er það hörð kvöð á mönnum í þessum sóknum, fram yfir aðra í læknishéraðinu. En eigi hið opinbera að borga alt saman, þá verða það mikil útgjöld.

Það stendur í frumv., að menn eigi að vitja læknis innan sólarhrings, en það getur vel svo farið, að í þetta gangi margir sólarhringar. Ef læknir er ekki heima, þá verður að bíða hans, og gera má ráð fyrir því, að læknar láti það sitja fyrir að vitja lifandi manna sjúkra frekar en hinna dauðu og þegar svo stendur á, þyrfti eiginlega að gera ráð fyrir biðpeningum handa sendimönnum. Eg tala þetta með sérstöku tilliti til þess, að eg býst við, að nefnd verði skipuð í málið, og er þá ekki úr vegi að tala um nokkur atriði þess, til leiðbeiningar henni.

Í 2. gr. er sagt, að prestar eigi að geta um dauðamein hins látna eftir þeim skýrslum, sem þeir geti beztar fengið. Þetta er mér ekki fullljóst. Ef það er meiningin, að prestar eigi að senda sjúkdómslýsingar til læknis og fá svo skýrslu hans um dauðameinið, þá má segja, að prestum sé þetta kleift, og eru þó allmiklir vafningar við það. En það getur eins vel verið, að hér sé ætlast til þess, að prestar ákveði dauðameinið sjálfir, eftir þeim skýrslum, sem þeir fá frá heimilismönnum hinna látnu.

Eg leyfi mér að stinga upp á því, að nefnd sé skipuð í þetta mál, og álít eg að 3 manna nefnd ætti að vera nóg.