09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

61. mál, verslunarlóðin í Vestmannaeyjum

Flutningsmaður (Jón Magnússon). Það er samkvæmt samþykt sýslunefndarinnar í Vestmannaeyjum og beiðni þingmálafundar, að eg ber upp þetta frumvarp. Sýslunefndin hafði snúið sér til stjórnarinnar með málið, en stjórnin ekki borið það fram, líklega af þeirri ástæðu, að það kom svo seint til stjórnarráðsins, að það varð ekki undirbúið af ráðherra. Sýslunefndin hafði farið þess á leit í erindi sínu til landsstjórnarinnar, að öll Heimaey yrði gerð að verzlunarlóð, eða ef landstjórnin féllist ekki á það, þá yrði ákveðinn hluti gerður að verzlunarlóð. Stjórnarráðinu þótti ekki ástæða til að fara svo langt í einu að gera alla eyna að verzlunarlóð, heldur áleit að þetta nægði, sem nú er farið fram á.

Ástæður fyrir frumv. eru þær sömu, sem fyrir frv. háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) um stækkun verzlunarlóðarinnar í Gerðum, og þó nokkrar frekari. Fólki hefir fjölgað svo afar mikið í Vestmannaeyjum á síðustu árum, og húsum þar með, að nauðsynlegt er að fá lögreglusamþykt fyrir kauptúnið. Það næst með því að skifta eyjunni í tvent og það er trygt með þessari stækkun. Það er líka mikil ástæða til að stækka verzlunarlóðina, að mörg tómthús, jafn vel stórhýsi eru utan verzlunarlóðarinnar, og ekki fæst lán út á þau úr veðdeild, vegna þess að þau eru ekki á verzlunarlóðinni.

Eg hygg ekki, að eg þurfi að mæla frekara fram með þessu frumv. Ef stjórnarráðið gæti lögum samkvæmt stækkað lóðina, þá hefði ekki þurft þetta frumv. En stjórnarráðið hefir að eins heimild til að ákveða verzlunarlóðir, sem ekki hafa ákveðin takmörk að lögum, en verzlunarlóðin í Vestmannaeyjum hefir ákveðin takmörk samkvæmt lögunum frá 1905.